Handbolti

Dræm mæting á fyrsta leik hafi verið Vals­liðinu á­fall

Aron Guðmundsson skrifar
Svo gæti farið að leikur þrjú í úrslitaeinvígi Olís deildar karla í kvöld verði síðasti leikur Vals undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar.
Svo gæti farið að leikur þrjú í úrslitaeinvígi Olís deildar karla í kvöld verði síðasti leikur Vals undir stjórn Óskars Bjarna Óskarssonar. Vísir/Pawel

Vals­menn eru með bakið upp við vegg og 2-0 undir fyrir þriðja leik liðsins gegn Fram í úr­slita­ein­vígi Olís deildar karla í kvöld. Þjálfari Vals segir sína menn þurfa að kalla fram það allra besta hjá sér í kvöld, liðið þurfi góðan stuðning, dræm mæting á fyrsta leik á Hlíðar­enda hafi verið liðinu áfall.

„Þetta er ósköp ein­falt, ef við viljum vera áfram í þessu þá þurfum við sigur og al­vöru frammistöðu. Þannig er það bara,“ segir Óskar Bjarni í sam­tali við Íþrótta­deild en Fram getur með sigri í kvöld á Hlíðarenda tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.. „Það er ekkert alltaf skemmti­legast í heimi að vera 2-0 undir en um leið og við sigrum í dag er þetta orðið allt annað dæmi. Við þurfum bara að kalla fram það allra besta í kvöld. Það er nokkuð ljóst.“

En hvernig ertu að nálgast þína leik­menn í að­draganda þessa þýðingar­mikla leik með þessa stöðu í huga?

„Ég held nú kannski að þú sért ekkert mikið að hugsa út í að staðan í ein­víginu sé 2-0. Það má ekki eyða of mikilli orku í hvað ef og allt svo­leiðis. Nú höfum við bara reynt að fókusa á síðasta leik, hvað var gott þar og hvað var slæmt, sem og í leik eitt. Það er alltaf eitt­hvað að breytast milli liðanna og annað slíkt, svo þarf maður að sjá hvernig þetta rúllar af stað í kvöld. Varnar- og sóknar­lega, vera sóknd­jarfur, taka ákveðið frum­kvæði. Í enda dags er þetta bara venju­legur leikur og góða við hann er að við þurfum bara að vinna hann. Það getur oft bara verið jákvætt.“

Vill fá Fram upp á sitt besta: „En við ætlum að vinna“

Hann vill sjá sitt lið tengja betur saman heldur en í fyrstu tveimur leikjunum en fari illa í kvöld verður leikurinn sá síðasti hjá Val undir stjórn Óskars Bjarna sem lætur af störfum eftir tíma­bilið.

„Í fyrsta leiknum vorum við óánægðir með ýmis­legt varnar­lega, sóknar­leikurinn var eigin­lega betri. Í leik nú­mer tvö var það eigin­lega öfugt. Vörnin var mun betri og mark­varslan en Framararnir hafa haft ákveðna stjórnun í þessum leikjum, þeir stjórna þáttunum betur en við og við erum oft óagaðri og sjálfum okkur verstir. Það koma kaflar sem eru okkur dýrir í báðum leikjunum og þeir þurfa bara að vera styttri. Þú gerir alltaf ein­hver mistök, það tekst ekki allt, en þessir kaflar hafa bara ekki verið nógu stuttir og hafa að mörgu leiti orðið okkur að falli.“

Frá fyrsta leik liðanna á HlíðarendaVísir/Pawel

Lið Fram sé ógnar­sterkt og vel þjálfað.

„Það er góð stemning þarna, þeir eru með marga flotta og upp­alda leik­menn innan sinna raða, eru með góðan þjálfara, ríkjandi bikar­meistarar og ég á von á því að þeir og vil að þeir spili sinn besta leik en við ætlum að vinna.“

Alvöru stuðningur gefi alvöru orku

Dræm mæting stuðnings­manna Vals á fyrstu tvo leikina vakti at­hygli og hefur ekki farið fram hjá leik­mönnum og þjálfurum Vals.

„Auðvitað er klárt mál að stuðningurinn hefur mikið að segja. Fyrsti leikurinn var smá áfall fyrir okkur og ég tel okkur hafa látið það hafa áhrif á okkur þó svo að við hefðum verið búnir að undir­búa okkur smá fyrir þetta. Kannski klikkuðum við svolítið þar í undir­búningnum, félagið hafði sett mikla orku og kraft í að við myndum fylla húsið á laugar­deginum fyrir leik eitt. Miðað við að úr­slita­ein­vígið væri að byrja var þetta smá falið.

Fyrir leik tvö hafði þetta nú minni áhrif á okkur, þá var fót­boltinn að spila í Kópa­voginum en við leik­menn og þjálfarar í kringum liðið vorum ekkert svo mikið að velta þessu fyrir okkur. Við höfðum Baldur, Krissa og þá sem standa okkur næst en fyrsti leikurinn var eigin­lega meira sjokk. En það er klárt mál að al­vöru stuðningur gefur al­vöru orku, þú vilt hafa fullt hús og það gefur auga­leið að það er miklu skemmti­legra og getur hjálpað í þessum köflum sem hafa reynst okkur erfiðir til þessa.“

Þriðji leikur Vals og Fram í úr­slita­ein­vígi Olís deildar karla í hand­bolta fer fram í N1-höllinni á Hlíðar­enda og hefst klukkan hálf átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×