Handbolti

Þjálfari Íslendingaliðsins hné niður í úr­slita­leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christian Berge hefur gert Kolstad að norskum meisturum þrjú ár í röð.
Christian Berge hefur gert Kolstad að norskum meisturum þrjú ár í röð. getty/Igor Kralj

Íslendingaliðið Kolstad varð í gær norskur meistari í handbolta karla. Þjálfari liðsins hné niður á hliðarlínunni í seinni hálfleik í leiknum gegn Elverum.

Kolstad sigraði Elverum, 31-28, á heimavelli í gær. Kolstad vann einvígi liðanna, 2-0, og varð Noregsmeistari þriðja árið í röð. Fimm Íslendingar leika með Kolstad.

Þegar tólf mínútur voru liðnar af seinni hálfleik hné Christian Berge, þjálfari Kolstad, niður á hliðarlínunni. Þögn sló á þá sex þúsund áhorfendur í Trondheim Spektrum.

VG greinir frá því að Berge sé með gáttatif sem lýsir sér í óreglulegum og hröðum hjartslætti. Þjálfarinn missti stjórn á líkamanum og gera þurfti nokkurra mínútna hlé á leiknum meðan hugað var að honum.

Eftir leikinn sagði framkvæmdastjóri Kolstad, Jostein Sivertsen, að Berge væri í lagi en hefði ekki viljað taka þátt í fagnaðarlátum liðsins.

Sigvaldi Guðjónsson, fyrirliði Kolstad, skoraði þrjú mörk í leiknum í gær. Sveinn Jóhannsson gerði tvö mörk, Benedikt Gunnar Óskarsson eitt en Arnór Snær, bróðir hans, var ekki á meðal markaskorara. Markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson leikur einnig með Kolstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×