Veður

Hiti á bilinu tíu til 18 stig í dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það verður eflaust hægt að sitja úti víða í dag eins og í gær.
Það verður eflaust hægt að sitja úti víða í dag eins og í gær. Vísir/Vilhelm

Í dag má búast við því að það verði suðaustan fimm til 13 metrar á sekúndu og skýjað með köflum. Það verður hvassast við suðvesturströndina, en víða léttskýjað síðdegis. Hiti verður á bilinu tíu til 18 stig, hlýjast norðaustantil.

Greint er frá því í hugleiðingum veðurfræðings að við Færeyjar sé allmikil hæð en suður af Hvarfi sé lægð og saman beini þessi veðrakerfi hlýju og fremur þurru lofti úr suðri til okkar.

Þar kemur einnig fram að á morgun og næstu daga megi búast við svipuðu veðri. Suðlægum áttum golu eða kalda og víða léttskýjað og sólskin. Sums staðar við sjávarsíðuna má búast við því að það verði skýjað samkvæmt hugleiðingunum og jafnvel þokuloft eða súld þar.

Áframhaldandi hlýindi, einkum í innsveitum norðan- og austantil, en hiti getur þar farið yfir 22 stig þegar best lætur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Suðlæg átt, víða 3-8 m/s, léttskýjað og hiti 16 til 22 stig, en suðaustan 8-13, lítilsháttar væta og hiti 10 til 16 stig vestantil.

Á föstudag:

Suðaustan 5-13 m/s suðvestantil, en annars hægviðri. Yfirleitt bjart, en sums staðar þokuloft við ströndina. Hiti 8 til 20 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag:

Hæg suðaustlæg eða breytileg átt og víða léttskýjað, en sums staðar þokuloft við sjávarsíðuna. Áfram hlýtt í veðri, einkum inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×