Fótbolti

Sjáðu mörkin þegar United og Spurs gulltryggðu sig í úr­slita­leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mason Mount skoraði tvívegis fyrir Manchester United gegn Athletic Bilbao í gær.
Mason Mount skoraði tvívegis fyrir Manchester United gegn Athletic Bilbao í gær. getty/Visionhaus

Manchester United og Tottenham mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar á San Mamés í Bilbao 21. maí. Ensku liðin tryggðu sér sæti í úrslitum í gær.

United vann fyrri leikinn gegn Athletic Bilbao á útivelli, 0-3, og var því í góðri stöðu fyrir seinni leikinn á Old Trafford.

Bilbæingar náðu forystunni á 31. mínútu þegar Mikel Jauregizar skoraði með skoti fyrir utan vítateig.

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri United, gerði nokkrar breytingar á liði sínu í seinni hálfleik og einn af þeim sem kom inn á, Mason Mount, jafnaði metin á 72. mínútu.

Casemiro kom Rauðu djöflunum yfir á 80. mínútu þegar hann skallaði aukaspyrnu Brunos Fernandes í netið. Rasmus Højlund jók muninn í 3-1 á 85. mínútu og í uppbótartíma skoraði Mount með skoti af mjög löngu færi í tómt mark Bilbæinga.

Tottenham leiddi, 3-1, fyrir seinni leikinn gegn Bodø/Glimt í Noregi. Spurs komst yfir á 63. mínútu þegar Dominic Solanke skoraði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Spænski bakvörðurinn Pedro Porro skoraði svo annað mark gestanna sex mínútum seinna þegar fyrirgjöf hans frá hægri fór í stöngina og inn.

United komst síðast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar 2021 þegar liðið tapaði fyrir Villarreal eftir vítaspyrnukeppni en Spurs var síðast í úrslitum 1984. Þá vann liðið Arnór Guðjohnsen og félaga í Anderlecht í vítakeppni.


Tengdar fréttir

„Hverjum er ekki sama þó við séum í veseni í deildinni“

Tottenham og Manchester United munu mætast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar, en liðin hafa átt verulega slæm tímabil í deildinni. Manchester er í 15. sæti á meðan Tottenham er í 16. sæti. Evrópudeildin myndi hinsvegar láta tímabilið líta vel út fyrir sigurvegarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×