Fótbolti

Bauð fimm kíló af signum fiski í skiptum fyrir miða á leikinn gegn Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Bodø/Glimt fjölmenntu til London í síðustu viku og þeir bíða nú spenntir eftir seinni leiknum gegn Tottenham.
Stuðningsmenn Bodø/Glimt fjölmenntu til London í síðustu viku og þeir bíða nú spenntir eftir seinni leiknum gegn Tottenham. getty/Jacques Feeney

Mikil eftirspurn er eftir miðum á seinni leik Bodø/Glimt og Tottenham í undanúrslitum Evrópudeildarinnar og stuðningsmenn eru tilbúnir að gera ýmislegt til að ná í miða.

Torbjorn Eide, sem starfar sem framleiðslustjóri hjá fiskimarkaði í Senja, dó ekki ráðalaus og bauð fimm kíló af signum fiski í skiptum fyrir miða á leikinn á morgun. Talið er að andvirði fimm kílóa af harðfiski sé um 2.500 norskra króna, eða rúmlega 31 þúsund íslenskra króna.

„Við framleiðum besta signa fiskinn í Noregi og þú getur örugglega ekki fengið hann í Bodø. Svo mér datt í hug að einhver vildi þetta,“ sagði Eide við NRK.

Oystein Aanes beit á agnið. Hann átti auka miða þar sem bróðir hans komst ekki á leikinn og lét Eide hafa hann í skiptum fyrir signa fiskinn.

Mikil spenna er fyrir leiknum annað kvöld enda getur Bodø/Glimt orðið fyrsta norska liðið til að komast í úrslit í Evrópukeppni.

Noregsmeistaranna bíður þó erfitt verkefni þar sem þeir töpuðu fyrri leiknum á heimavelli Spurs, 3-1.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×