Íslenski boltinn

FH-ingar kláruðu Akur­eyringa á korteri og jöfnuðu Blika á toppnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valgerður Ósk Valsdóttir kom FH-ingum á bragðið fyrir norðan.
Valgerður Ósk Valsdóttir kom FH-ingum á bragðið fyrir norðan. vísir/guðmundur þórlaugarson

FH gerði góða ferð til Akureyrar og vann Þór/KA, 0-3, í Boganum í 4. umferð Bestu deildar kvenna í dag. Með sigrinum jöfnuðu FH-ingar Íslandsmeistara Blika að stigum á toppi deildarinnar.

FH hefur nú fengið tíu stig í fyrstu fjórum leikjum sínum og aðeins fengið á sig eitt mark.

Eftir að hafa unnið fyrstu tvo leiki sína á tímabilinu hefur Þór/KA nú tapað tveimur leikjum í röð með markatölunni 0-6.

Öll þrjú mörk leiksins í Boganum í dag komu á fimmtán mínútna kafla í fyrri hálfleik.

Á 22. mínútu átti Berglind Freyja Hlynsdóttir sendingu inn fyrir vörn Þórs/KA á Valgerði Ósk Valsdóttur sem lék á varnarmann og skoraði framhjá Jessicu Berlin í marki heimakvenna.

Fimm mínútum síðar skoraði hin átján ára Berglind Freyja sjálf eftir að boltinn hrökk til hennar við vítateigslínuna.

Á 37. mínútu skoraði Elísa Lana Sigurjónsdóttir svo þriðja mark gestanna úr Hafnarfirði eftir góðan undirbúning Deju Sandoval.

Fleiri urðu mörkin ekki og FH-ingar halda glaðbeittir heim á leið með þrjú stig í pokahorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×