Handbolti

Þórir ráðinn til HSÍ

Valur Páll Eiríksson skrifar
Þórir Hergeirsson (annar frá vinstri) á Handboltaþinginu í dag.
Þórir Hergeirsson (annar frá vinstri) á Handboltaþinginu í dag. vísir/valur páll

Þórir Hergeirsson, sigursælasti landsliðsþjálfari sögunnar, hefur verið ráðinn til Handknattleikssambands Íslands sem sérlegur ráðgjafi þess. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi við Hlíðarenda í dag.

Handboltaþing fer fram á Hlíðarenda í dag, þar sem forráðamenn flestra félaga landsins eru samankomnir og ræða framtíð íþróttarinnar. Hlé var gert á þinginu í hádeginu vegna blaðamannafundar þar sem forráðamenn HSÍ tilkynntu um ráðningu Þóris.

Selfyssingurinn Þórir er 61 árs gamall. Hann var þjálfari norska kvennalandsliðsins frá 2009 til 2024 en hann kvaddi liðið með Evróputitli í lok síðasta árs. Áður hafði hann verið aðstoðarþjálfari liðsins frá 2001.

Undir stjórn Þóris varð Noregur tvisvar Ólympíumeistari, þrisvar heimsmeistari og Evrópumeistari sex sinnum. Þess utan hlaut liðið fjölda silfur og bronsverðlauna undir hans stjórn.

Þórir hefur verið án starfs síðan hann yfirgaf Noreg eftir EM í desember síðastliðnum en mun nú taka að sér hlutastarf hjá HSÍ og vera sérlegur ráðgjafi sambandsins.

Rætt verður við Þóri í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×