Fótbolti

Spila allar í takka­skóm fyrir konur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julia Grosso spilar með liði Fort Lauderdale United í USL Super League deildinni.
Julia Grosso spilar með liði Fort Lauderdale United í USL Super League deildinni. Getty/Chris Arjoon

Nýstofnuð atvinnumannadeild í bandaríska kvennafótboltanum ætlar að láta verkin tala í baráttunni fyrir því að fækka krossbandsslitum í leikjum deildarinnar.

Þessi nýja deild mun bera nafnið USL Super League og er átta liða deild.

Forráðamenn deildarinnar hafa gefið það út að allir leikmenn deildarinnar munu spila í sérstökum takkaskóm. Þetta eru takkaskór sem verða hannaðir fyrir konur en ekki fyrir karla.

Nær allir takkaskór hafa hingað til verið hannaðir fyrir karlmenn en rannsóknir sýna að það gæti verið hluti skýringarinnar á því af hverju fleiri knattspyrnukonur en karlar slíta krossband.

Líkamsbygging kvenna er auðvitað allt öðruvísi og álagið á hnén því mjög frábrugðið því sem er hjá körlunum.

Deildin er í samstarfi með IDA Sports íþróttavöruframleiðanda frá Texas fylki. Fyrirtækið segist hanna takkaskóna sérstaklega fyrir konur og hönnunin miðist við það að fækka markvisst meiðslum hjá þeim. Það er tekið mið af þeirra þörfum og hvernig álagið er öðruvísi á fæturnar en hjá strákunum.

Rannsóknir sýna að konur eru átta sinnum líklegri til að slíta krossband en karlar.

Samvinnuverkefnið var tilkynnt í vikunni. Í því felst að leikmenn munu síðan gefa sitt álit á skónum sem muni síðan hjálpa fyrirtækinu við hönnum á takkaskó sínum í framtíðinni. Leikmennirnir munu að launum fá alla skóna sína frítt.

USL er á sínu fyrsta tímabili en hún er stofnuð til höfuðs NWSL deildinni, National Women's Soccer League, sem hefur verið aðalatvinnumannadeild kvennafótboltans í Bandaríkjunum í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×