Körfubolti

„Mjög auð­veld að­lögun fyrir mig“

Sindri Sverrisson skrifar
Paulina Hersler var maður leiksins í sigri Njarðvíkur á Keflavík í gær og er á leiðinni á Just wingin' it í fyrsta sinn.
Paulina Hersler var maður leiksins í sigri Njarðvíkur á Keflavík í gær og er á leiðinni á Just wingin' it í fyrsta sinn. Stöð 2 Sport

Hin sænska Paulina Hersler hefur smollið eins og flís við rass inn í lið Njarðvíkur sem nú er komið í 2-0 í undanúrslitaeinvíginu við Keflavík í Bónus-deildinni í körfubolta. Hún fann það strax að hún passaði inn í liðið, við komuna í lok janúar.

Hersler var valin Just wingin‘ it maður leiksins eftir sigurinn gegn Keflavík í gær í spennuleik. Hún mætti því í settið hjá Körfuboltakvöldi og má sjá viðtalið við hana hér að neðan.

Klippa: Paulina Hersler maður leiksins

Hörður Unnsteinsson benti á að Hersler hefði einfaldlega passað frábærlega inn í Njarðvíkurliðið og nefndi sérstaklega skandinavískt samstarf hennar og hinnar dönsku Emilie Hesseldal.

„Við pössum svo vel saman. Innan sem utan vallar þá er þetta svo gaman. Ég nýt þess í botn að vera innan um liðsfélaga mína. Andinn er frábær. Það sést líka á vellinum. Við þekkjum okkar hlutverk svo vel og við Em njótum svo sannarlega góðs hvor af annarri. Ég elska að spila með henni,“ sagði Hersler.

Hún hefur komið víða við á ferlinum og lék síðast í Egyptalandi áður en hún ákvað að flytja í Reykjanesbæ.

„Mér fannst ég strax passa inn. Ég ræddi við umboðsmanninn minn og leikmenn og hugsaði með mér að þetta gæti gengið upp. En um leið og ég kom hingað þá fann ég það. Liðsfélagarnir og þjálfarateymið… þetta hefur verið mjög auðveld aðlögun fyrir mig og ég er mjög þakklát fyrir það. Ég held að ég geti hjálpað liðinu með góðum hætti,“ sagði Hersler sem nú þegar hefur fagnað bikarmeistaratitli með Njarðvík og ætlar sér nú þann stóra:

„Ég vil vinna. Ég kom hingað og vissi að við gætum unnið. Ég veit að við getum unnið alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×