Körfubolti

„Fárán­lega erfið sería“

Siggeir Ævarsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir er fyrirliði Hauka
Þóra Kristín Jónsdóttir er fyrirliði Hauka Vísir/Pawel

Deildarmeistarar Hauka fullkomnuðu endurkomuna gegn Grindavík í oddaleik í kvöld í 8-liða úrslitum Bónus-deildar kvenna en Haukar lentu 2-0 undir í seríunni. Haukur unnu að lokum nokkuð afgerandi sigur í kvöld 79-64.

Þóra Kristín Jónsdóttir, fyrirliði Hauka, viðurkenndi fúslega að það hefði verið mikill léttir að landa sigrinum í kvöld.

„Mjög mikill léttir! Þetta er búin að vera fáránlega erfið sería. Þær komu inn í seríuna af miklum stíganda úr deildinni og bikarnum og öllu og gerðu okkur þetta bara fáránlega erfitt.“

Leikurinn var í nokkru jafnvægi framan af og Grindvíkingar náðu upp smá forskoti undir lok fyrri hálfleiks en þá komu tíu stig frá Haukum í röð sem virtust setja tóninn fyrir seinni hálfleik.

„Við pökkuðum bara svolítið inn í teig. Vorum að hjálpa mikið á „drævunum“ og það bara setti tóninn. Svo settum við svæðisvörnina í smástund og hún hjálpaði okkur að lyfta þessu aðeins hærra.“

Þóra vildi ekki meina að þessi afgerandi sigur hefði verið einhverskonar yfirlýsing fyrir einvígið sem er framundan gegn Val í undanúrslitum. Serían hefði einfaldlega verið mjög strembin.

„Ég veit ekki alveg hvort það sé hægt að segja að þetta sé „statement“ sigur í fimmta leik í seríu á móti Grindavík. Þetta er bara búið að vera eins og ég sagði, erfið sería og við erum búnar að hafa virkilega mikið fyrir þessu.“

Það er lítill tími fyrir fagnaðarlæti hjá Haukum þrátt fyrir að það sé að skella á páskafrí en það er stutt í næsta leik.

„Næsti leikur er bara á laugardaginn held ég þannig að við þurfum bara að hvíla okkur vel og undirbúa okkur vel fyrir þá seríu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×