Í fundargerð fundar menningar- og íþróttaráðs á föstudag segir að lögð hafi verið fram tillaga meirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna um lengingu opnunartíma sundlauga í framhaldi af samþykkt borgarstjórnar þann 4. mars síðastliðinn, um að fela menningar- og íþróttaráði útfærslu á lengingu á sumaropnun sundlauga um helgar. Tillagan hafi verið svohljóðandi:
„Lagt er til að lengja opnunartíma um klukkustund um helgar í öllum sundlaugum borgarinnar. Gildir þetta frá og með 1.júní 2025 til og með 31.ágúst 2025. Opið verður því til kl. 22:00 laugardaga og sunnudaga, utan Klébergslaugar á Kjalarnesi, en hún verður opin frá kl. 10:00 - 18:00.“
Fagna tillögunni
Tillagan var samþykkt og fulltrúar í ráðinu lögðu fram bókun þar sem kemur fram að þeir fagni lengri opnunartíma sundlauga um helgar yfir sumartímann. Tekið sé mið af lögfestum útivistartíma barna og ungmenna sem aftur hafi mikilvægt forvarnargildi og stuðli að heilbrigðri samveru fjölskyldu og vina.
Í greinargertð með tillögunni segir einnig að tillagan styðji við útivistarreglur barna. Útivistartíminn sé lengdur frá og með 1. júní til 1. september. Frá og með 1. september til 1. maí sé útivistartíminn styttri, eða til klukkan 20 fyrir börn tólf ára og yngri og til klukkan 22 fyrir þrettán til sextán ára.
Tekjurnar vega upp á móti
Í greinargerðinni segir að vænt útgjöld vegna aukins launakostnaðar séu um sjö milljónir króna miðað við þriggja mánaða sumaropnun í öllum laugum. Lenging opnunartíma um klukkustund kosti að jafnaði um 2,3 milljónir króna á mánuði í heild fyrir allar laugar.
Aftur á móti segir að væntar tekjur séu taldar jafnast út á móti auknum rekstrarkostnaði.