Innlent

Hand­tekin vegna and­láts föður síns

Samúel Karl Ólason og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Maðurinn var fluttur þungt haldinn á sjúkrahús en lést þar síðar á föstudaginn.
Maðurinn var fluttur þungt haldinn á sjúkrahús en lést þar síðar á föstudaginn. Vísir/Vilhelm

Kona sem grunuð er um að hafa orðið föður sínum að bana var úrskurðuð í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness á föstudag. Hún var handtekin í heimahúsi mannsins eftir að tilkynning barst um meðvitundarlausan mann.

Fréttastofa sagði frá málinu í gær en samkvæmt heimildum fréttastofu kom málið upp snemma á föstudagsmorgun. 

Sjá einnig: Kona í gæslu­varð­haldi í tengslum við and­lát

Í tilkynningu frá lögreglunni segir að maðurinn hafi verið þungt haldinn þegar lögregluþjóna bar að garði. Hann hafi verið fluttur á slysadeild en hafi látið lífið síðar um daginn.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er maðurinn faðir konunnar en ekki er gerð grein fyrir tengslum þeirra í tilkynningu lögreglunnar.

Konan var úrskurðuð í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 16. apríl.

Lögreglan segir ekki hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.


Tilkynningu lögreglunnar má sjá í heild sinni hér að neðan.

Kona um þrítugt var í fyrrakvöld í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðuð í gæsluvarðhald til miðvikudagsins 16. apríl á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á mannsláti í umdæminu.

Það var snemma á föstudagsmorgun sem lögreglu barst tilkynning um meðvitundarlausan karlmann í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu. Viðbragðsaðilar héldu strax á staðinn, en karlmaðurinn var þungt haldinn þegar að var komið. Hann var fluttur á slysadeild og lést þar síðar um daginn. Konan, sem er í gæsluvarðhaldi, var handtekin í fyrrnefndu húsi.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×