Orri Steinn Óskarsson, fyrirliði íslenska fótboltalandsliðsins, kom inn á sem varamaður í byrjun seinni hálfleiks þegar Real Sociedad tapaði fyrir Mallorca, 0-2, í spænsku úrvalsdeildinni í dag.
Með sigrinum komst Mallorca upp fyrir Real Sociedad í 8. sæti deildarinnar. Mallorca er nú með 43 stig en Real Sociedad 41.
Kanadamaðurinn Cyle Larin kom gestunum frá Mallorca yfir á 20. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik. Strax í upphafi seinni hálfleiks jók Sergi Darder muninn í 0-2 og staða Real Sociedad orðin erfið.
Imanol Alguacil, knattspyrnustjóri Real Sociedad, setti Orra inn á völlinn á 56. mínútu. Hvorki sú breyting né aðrar báru hins vegar árangur og Mallorca vann leikinn, 0-2.
Orri hefur komið við sögu í 22 deildarleikjum á tímabilinu og skorað þrjú mörk.
Real Sociedad hefur átt í miklum vandræðum með að skora á tímabilinu en liðið hefur aðeins gert þrjátíu mörk í 31 deildarleik. Aðeins tvö lið hafa skorað færri mörk.