Kylfingar áttu að geta hafið æfingar fyrir komandi risamót í morgun en þeim var frestað vegna storms sem geysar á vellinum. Búast má við að þrumuveður verði fram eftir degi og í kjölfarið taki við töluverðar rigningar.
„Vegna vonskuveðurs og öryggismála munu hliðin ekki opnast eins og áætlað var fyrir æfingalotuna á mánudaginn. Öll bílastæði verða áfram lokuð þar til annað verður tilkynnt. Engir gestir ættu að nálgast Augusta National fyrr en frekari upplýsingar hafa verið gefnar út,“ segir í yfirlýsingu frá Augusta National.
Búist er við frekari tíðindum síðar í dag en alls er óljóst hvort æfingar geti yfirhöfuð farið fram þennan mánudaginn.
Veðurspáin segir til um sól á morgun og síður búist við rigningu í vikunni. Að undanskildum föstudeginum þar sem er gera má ráð fyrir skúrum.
Masters-mótið hefst á fimmtudag og verður sýnt beint frá því á Stöð 2 Sport 4 frá fimmtudegi fram á sunnudag.
Bein útsending frá mótinu hefst klukkan 19:00 á fimmtudagskvöld.