Barnaheill standa þessa dagana fyrir vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum.
Apríl er mánuður alþjóðlegrar vitundarvakningar um kynferðisofbeldi gegn börnum og vitundarvakningin á vegnum Barnaheilla stendur yfir frá 4. til 15. apríl 2025.
Verkefnið er ekki fjáröflun heldur snýst það um að vekja athygli á umfangi kynferðisofbeldis gegn börnum á Íslandi og hvetja fullorðna til að taka ábyrgð og vernda börnin í samfélaginu betur.
Barnaheill vilja benda fólki á að við getum öll gert eitthvað og allt skiptir máli.
„Litla fingurs loforð“
Um samfélagsmiðlaherferð er að ræða þar sem Barnaheill biðja fólk um að lakka nöglina á litla fingri í djúpgrænum lit og gefa „litla fingurs loforð“ um að taka afstöðu gegn kynferðisofbeldi gegn börnum.
Þátttakendur er beðnir um að taka af sér ljósmynd með grænu nöglina sína, deila henni á samfélagsmiðlum og í leiðinni hvetja aðra til að taka þátt. Undir myndina skrifar fólk eða hópar #ÉGLOFA að… eða #VIÐLOFUM.
Leikmenn Breiðabliks voru tilbúnir til að hefja herferðina í sínum fyrsta leik í gærkvöldi.
Í leiknum á Kópavogsvellinum voru allir leikmenn liðsins með grænt naglalakk á litla fingri og þeir tóku síðan af sér hópmynd þar sem þeir gefa loforð um að standa með börnum.
Skora á önnur félagslið
Blikarnir skoruðu um leið á önnur félagslið að gera það sama og það verður fróðlegt að sjá hversu mörk karla- og kvennalið á Íslandi svara þeirri áskorun.
Gott gengi Blikana með grænu nöglina í gær fær kannski einhverja hjátrúarfulla í liðinu til að halda því áfram í allt sumar. Fyrir leikinn í hafði Breiðablik aldrei áður unnið fyrsta leik í titilvörn.
Barnaheill mun líka dreifa myndböndum þar sem þjóðþekkt fólk lofar að standa með börnum, áhrifavaldar munu pósta og skora á aðra áhrifavalda og fjölbreyttir hópar í samfélaginu taka hópmyndir og skora á aðra hópa að gera það sama.
Þá þora fleiri börn að segja frá
Þar má meðal annars nefna kóra, starfsfólk á ýmsum skrifstofum, fimleikafélög, knattspyrnulið, starfsfólk bókasafna, félagasamtök, lögreglu, ráðuneyti, verslanir og fleiri.
„Því fleiri sem taka þátt þeim mun meiri líkur á að fleiri börn þori að segja frá og fá hjálp auk þess sem fleiri gerendur vonandi leita sér hjálpar fremur en að brjóta kynferðislega gegn barni,“ segir í þessari þörfu áskorun.