Kilmer lést þriðjudaginn 1. apríl, 65 ára að aldri, úr lungnabólgu en hafði þar áður glímt við hálskrabbamein um árabil. Kilmer var ein skærasta stjarna níunda og tíunda áratugarins og skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann lék hinn roggna Iceman, helsta keppinaut Maverick sem Tom Cruise lék, í hasarmyndinni Top Gun (1985).
Fjöldi fólks minntist leikarans, ástríðu hans og leikhæfileika, eftir andlátið en þó vakti athygli að ekkert skyldi bóla á minningarorðum eða kveðju frá Tom Cruise í ljósi sögu þeirra. En í gærkvöldi rauf Cruise þögnina á kvikmyndaráðstefnunni CinemaCon í Las Vegas þar sem hann var að kynna Mission Impossible: Final Reckoning.
Stundarþögn fyrir kæran vin
„Ég vil heiðra kæran vin minn, Val Kilmer,“ sagði Cruise þegar hann steig á svið í Vegas.
„Ég get ekki sagt ykkur hve mikið ég dáðist að störfum hans, hve mikið álit ég hafði á honum sem manneskju og hve þakklátur og auðmjúkur ég var að hann skyldi vera með í Top Gun og koma svo aftur í Top Gun: Maverick,“ sagði hann.
Cruise bað áhorfendur síðan um að minnast Kilmer með sér með stundarþögn. „Takk Val, ég óska þér velfarnaðar á næsta ferðalagi þínu,“ sagði hann svo.
Þegar Kilmer lék í Top Gun: Maverick árið 2022 var hann illa farinn eftir hálskrabbamein og átti erfitt með að tjá sig. Cruise lagði mikla áherslu á að Kilmer yrði með og eina senan með Kilmer var sú fyrsta sem var tekinn upp fyrir myndina.