Menning

Klukkur og kaffi­bollar í partýi á Prikinu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hönnuðurinn Viktor Weisshappel hannaði klukkur fyrir HönnunarMars og rannsakar fyrirbærið sem tíminn er.
Hönnuðurinn Viktor Weisshappel hannaði klukkur fyrir HönnunarMars og rannsakar fyrirbærið sem tíminn er. Aðsend

„Í samfélagi sem ýtir okkur sífellt til að vera hraðari og afkastameiri er auðvelt að gleyma því að tíminn sjálfur breytist ekki, það er upplifunin sem sveiflast,“ segir hönnuðurinn Viktor Weisshappel sem opnar klukkusýningu á Prikinu í tilefni af Hönnunarmars. Hátíðin hefst með pompi og prakt í dag. 

Viktor rekur Strik Stúdíó ásamt litlum hópi hönnuða og þau eru með skrifstofur á annari hæð Priksins. 

„Við erum að hanna útlitið á hátíðinni þetta árið og erum einnig að halda samsýningu á Prikinu,“ segir Viktor en sýningin ber heitið Gangur og sprettur.

„Sýningin samanstendur af tveimur klukkum sem skapa samtal um tímaupplifun, þar sem þær endurspegla ólíkar leiðir til að upplifa tíma og hreyfingu. Gangur er klukka sem fangar reglubundinn takt lífsins á meðan Sprettur sýnir tímann á hlaupum, þar sem fæturnir virðast vera í kapphlaupi við hvorn annan.

Í samfélagi sem ýtir okkur sífellt til að vera hraðari og afkastameiri, er auðvelt að gleyma því að tíminn sjálfur breytist ekki, það er upplifunin sem sveiflast.“

Klukkan hans Viktors er á stöðugu arki.Aðsend

Hugmyndin hefur verið í þróun síðustu mánuði. 

„Í fyrstu langaði mig bara að hanna litríka klukku fyrir heimilið en ákvað svo að gera fleiri og sýna á HönnunarMars. Tíminn er oft á hlaupum hjá mér en þá verður maður bara að staldra aðeins við og halda sér í reglubundnum gangi, eitt skref í einu,“ segir hann og brosir. 

„Flóki Sigurjónsson verður sömuleiðis á staðnum með boli til sölu og plaköt gefins undir merkinu Post Work Society, sem er merki hannað fyrir fólk sem elskar vinnuna sína of mikið og er ófeimið við það. Merkið er stofnað af Flóka Sigurjónssyni og Steini Loga Björnssyni.“

Bolur frá PWS* eða Post Work Society.Aðsend

Þrívíddarhönnuðurinn María Gudjohnsen verður sömuleiðis með á sýningunni að sýna samstarfsverkefni sitt við Lavazza.

„Samstarfið er frumsýnt á DesignTalks í Hörpu í dag en þar verður Lavazza með pop-up kaffibar og sérhannaðan og framandi HönnunarMars kaffidrykk, auk innsetningar með verki Maríu. 

Verkið er gagnvirkt og verður hægt að sjá það vakna til lífsins með auknum veruleika (e. Augmented reality) sem virkjaður er með snjallsíma. Á Prikinu verður María með myndbandsverk og bolla sem hún var að hanna fyrir Lavazza. Það verður mikið líf og fjör hjá okkur, plötusnúður, pennar og blöð fyrir teiknara og annað stuð.“

María Guðjohnsen hannaði bolla og myndbandsverk fyrir Lavazza kaffið.María Guðjohnsen





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.