Stjörnunni er spáð 5. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Á síðasta tímabili enduðu Garðbæingar í 4. sæti og í því þriðja tímabilið þar á undan.
„Fyrir hvert einasta tímabil veit maður eiginlega ekkert hverju maður á von á frá Stjörnunni. Það er erfitt að rýna í þá, bara milli leikja. Hvernig Jökull stillir upp og hvað markmið liðsins er fyrir hvert tímabil,“ sagði Albert.
„Ef maður horfir á Stjörnuna missa þeir alltaf stóra pósta fyrir hvert tímabil; hvort sem það er Ísak [Andri Sigurgeirsson], Eggert (Aron Guðmundsson) en núna er aðalhöggið að Óli Valur [Ómarsson] hafi endað hjá Breiðabliki. Róbert Frosti [Þorkelsson] er líka farinn út. Það er mjög áhugavert tímabil hjá Stjörnunni og ég held að þeir geri sér vonir um aðeins betri árangur en í fyrra og komist í Evrópukeppni.“
Jökull gerir jafnan miklar breytingar á liði Stjörnunnar milli leikja.
„Það er oft talað um þjálfarar vilji finna sitt sterkasta byrjunarlið. Hann virðist bara ekkert vera þannig þjálfari. Hann horfir bara á þetta leik eftir leik og fari eftir andstæðingum,“ sagði Albert.
„Ef maður horfir á hópinn hjá Stjörnunni; það var sterkt að fá [Benedikt] Warén inn og fá annan mann til að „rótera“ aðeins við Emil. Mér líst ekkert sérstaklega vel á að þeir spili saman frammi; Andri Rúnar [Bjarnason] og Emil. En svo horfir á öftustu línu. Það er að mínu mati veikleiki liðsins. Þorri [Mar Þórisson] kemur heim úr atvinnumennsku. Það eru stórir póstar farnir; Danni [Laxdal], Hilmar Árni [Halldórsson] og Tóti [Þórarinn Ingi Valdimarsson] hættir. Maður horfir á öftustu línu; Sindri [Þór Ingimarsson], Gummi [Kristjánsson] og Sigurður [Gunnar Jónsson]. Mér fannst vanta aðeins meiri breidd þar. Ég hef aðaláhyggjur af þeim í öftustu línu.“
Stjarnan mætir FH á Samsung-vellinum í Garðabæ í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni á mánudaginn.