Fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu að einn úr hópnum hafi ekki treyst sér til að halda áfram þegar á topp jökulsins var komið. Einn leiðsögumaður hafi haldið kyrru fyrir með viðkomandi en restin af hópnum haldið áfram.
Færið var slæmt á jökli og þurftu björgunarsveitir að fara á jökulinn á vélsleðum og snjóbílum. Um svipað leyti, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar, barst aðstoðarbeiðni frá fólki á tveimur jeppum á svipuðum slóðum sem höfðu fest bílana.

Fleiri bílar voru þá kallaðir út úr Grímsnesi og Garðabæ. Auk þeirra komu björgunarsveitir af höfuðborgarsvæðinu sem voru á æfingu í nágrenninu til aðstoðar.
Upp úr sjö í kvöld komu fyrstu björgunarmenn á sleðum á topp Eyjafjallajökuls og var þá sá einstaklingar sem þar beið aðstoðaður. Hann var fluttur á móti snjóbil sem fylgdi skammt á eftir. Gönguhópurinn sem hafði ætlað yfir á Fimmvörðuháls hafði þá snúið við vegna veðurs og var sú ákvörðun tekin að snjóbílarnir myndu ferja allan hópinn niður af jöklinum.
Rétt fyrir klukkan tíu í kvöld var allur gönguhópurinn kominn í bíla á Hamragarðaheiðinni og verður hann fluttur niður að skógum. Jepparnir tveir voru svo losaðir og eru nú á leið niður jökul.