Innlent

Bein út­sending: Deildar­myrkvi á sólu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sólmyrkvinn verður sjáanlegur frá Íslandi, norðausturhluta Bandaríkjanna, austurhluta Kanada, Grænlandi, Evrópu, norðvestur Afríku og norðvestur Rússlandi.
Sólmyrkvinn verður sjáanlegur frá Íslandi, norðausturhluta Bandaríkjanna, austurhluta Kanada, Grænlandi, Evrópu, norðvestur Afríku og norðvestur Rússlandi. EPA/Elvis Gonzalez

Deildarmyrkvi á sólu verður frá klukkan tíu til hádegis. Þegar myrkvinn nær hámarki upp úr ellefu hylur tunglið rúmlega 75 prósent af sólinni á sunnanverðum Vestfjörðum. 

Sævar Helgi Bragason stjörnufræðingur fjallar um myrkvann á vef Iceland at Night. Þar segir að deildarmyrkvinn verði umtalsverður. 

Samkvæmt veðurspám dagsins verður myrkvinn vel sjáanlegur á Vesturlandi en um það leyti sem deildarmyrkvinn á að ganga yfir er spáð bjartviðri á vestan- og suðvestanverðu landinu. 

Hér á landi sést mestur myrkvi frá Vesturbyggð á sunnanverðum Vestfjörðum, þaðan sem tunglið hylur 75,3% sólar. Deildarmyrkvinn verður mestur yfir Quebec í Kanada, þar sem 93 prósent skífu sólar er hulin, segir í umfjöllun Sævars.

Stjörnuathugunarstöðin í Greenwich stendur fyrir beinni útsendingu á myrkvanum sem hægt er að nálgast hér að neðan. 

Smávægilegur munur er á þeim tímasetningum sem deildarmyrkvinn nær hámarki hér á landi, til að mynda nær hann hámarki klukkan 11:05 í Reykjavík en klukkan 11:11 á Egilsstöðum. Nánari upplýsingar um tímasetningar má nálgast á vef Iceland at Night




Fleiri fréttir

Sjá meira


×