Körfubolti

Ís­land byrjar á Ísrael og endar á Frökkum

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Axel Guðmundsson, Tryggvi Snær Hlinason og Kristinn Pálsson fögnuðu vel eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM. Nú er ljóst hvaða leikir bíða liðsins þar.
Jón Axel Guðmundsson, Tryggvi Snær Hlinason og Kristinn Pálsson fögnuðu vel eftir að Ísland tryggði sér sæti á EM. Nú er ljóst hvaða leikir bíða liðsins þar. vísir/Anton

Nú liggur fyrir hvernig leikjadagskráin verður hjá íslenska karlalandsliðinu í körfubolta á EM. Liðið byrjar á að mæta Ísrael fimmtudaginn 28. ágúst.

Það eru sem sagt fimm mánuðir og einn dagur í það að Ísland hefji keppni á EM en liðið er í D-riðli sem spilaður verður í Spodek-höllinni í Katowice í Póllandi.

Leikir Íslands á EM:

  • Fimmtudagur, 28. ágúst:
  • Ísland - Ísrael
  • Laugardagur, 30. ágúst:
  • Ísland - Belgía
  • Sunnudagur, 31. ágúst:
  • Ísland - Pólland
  • Þriðjudagur, 2. september:
  • Ísland - Slóvenía
  • Fimmtudagur, 4. september:
  • Ísland - Frakkland

Dregið var í riðla í dag en hver gestgjafi hafði mátt velja sér eina samstarfsþjóð fyrir dráttinn og voru Pólverjar búnir að semja við Íslendinga. Því var þegar ljóst að Ísland yrði í D-riðlinum, ásamt Póllandi og svo Slóveníu með Luka Doncic innanborðs, því Slóvenar voru eina lausa liðið úr 2. styrkleikaflokki.

Við riðilinn bættist svo í dag stórstjörnulið Frakklands auk Ísraels og Belgíu.

Enda riðilinn á erfiðustu leikjunum

Ísland byrjar á tveimur „viðráðanlegustu“ leikjunum, gegn liðunum úr 4. og 5. styrkleikaflokki, áður en við tekur slagur við heimamenn og ógnvekjand lið Slóveníu og Frakklands.

Fjögur efstu liðin komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslitin sem verða spiluð í Riga í Lettlandi.

Miðasalan í Póllandi ætti að hefjast á næstu dögum og hafa Íslendingar forkaupsrétt að miðum, vegna samstarfsins við Pólverja.

Einn kvöldleikur hjá Íslandi

Ljóst er að alla leikdaga munu að minnsta kosti 2.577 miðar standa til boða fyrir Íslendinga og verða sætin fyrir aftan bekk íslenska liðsins, í Spodek-höllinni. Miðarnir kosta ýmist 50, 75 eða 95 evrur, eða minnst 7.300 krónur og mest 13.800 krónur.

Leiktímar eru 14:00, 17:00 og 20:30 að staðartíma, eða klukkan 12:00, 15:00 og 18:30 að íslenskum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá KKÍ munu heimamenn eiga síðasta leik hvers dags og því verður eini kvöldleikur Íslands við Pólverja sunnudagskvöldið 31. ágúst. Nákvæm tímasetning hvers leiks hefur þó ekki verið gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×