Hinn athyglissjúki Paul hefur undanfarið skapað sér nafn sem hnefaleikakappi en virðist þó ekki vilja keppa við neinn sem iðkar hnefaleika að atvinnu. Hinn fertugi Price er fyrrum rúgbí-leikmaður og því talsvert sterkbyggðari en flestir af fyrrverandi heimsmeisturum pílunnar.
Sky Sports greinir nú frá því að Price hafi sagt í útvarpsþættinum talkSport að Paul hafi sent honum skilaboð og beðið hann að nefna upphæð. Um er að ræða þá upphæð sem Price þyrfti að fá greidda til að stíga í hringinn með Paul.
Ísmaðurinn Price hefur ekki enn svarað en hefur látið Paul heyra það í gegnum tíðina.
„Hann er YouTuber, ekki hnefaleikakappi. Ég held að þetta yrði bara eitt högg og hann yrði út um allt, steinrotaður. Það væri sóun á peningum fyrir fólk að kveikja á þessu. Hann mun aldrei sigra mig í Wales. Enginn sigrar mig í Wales. Hann gæti mögulega sigrað Canelo Álvarez en hann er ekki að fara sigra mig.“
Jake Paul RESPONDS to Gerwyn Price fight call out 🥊
— talkSPORT (@talkSPORT) March 24, 2025
Who would win... Gerwyn Price or Jake Paul? Vote on our poll below!#darts #gerwynprice #jakepaul #boxing🥊 pic.twitter.com/NRaPNtpLYe
Árið 2022 virtist sem Ísmaðurinn væri að fara keppa í hnefaleikum þar sem góðgerðarbardagi hafði verið skipulagður. Eftir að hafa ráðfært sig við lækni ákvað Price hins vegar að draga sig til hlés. Ekki kemur fram í frétt Sky Sports hvort Price ætli að taka tilboðinu en ef bardaginn færi fram í Wales virðist hann ekki geta sagt nei úr þessu.