Sport

Sjáðu níu pílna leik Littlers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler fagnar níu pílna leiknum gegn Michael van Gerwen.
Luke Littler fagnar níu pílna leiknum gegn Michael van Gerwen. getty/David Davies

Heimsmeistarinn Luke Littler náði svokölluðum níu pílna leik í úrslitaleiknum á sjöunda keppniskvöldi úrvalsdeildarinnar í pílukasti í Cardiff í gær.

Í úrslitaleiknum sigraði Littler Michael van Gerwen, 6-4. Littler spilaði frábærlega og var með 112,5 í meðaltal í leiknum.

Hann náði líka níu pílna leik, það er að taka út upphafstöluna 501 með aðeins níu pílum. Littler kláraði níu pílna leikinn með því að hitta í tvöfaldan fimmtán. Fyrst í stað var hann ekki viss hvort pílan hefði farið á réttan stað en fagnaði svo vel og innilega eftir að dómarinn gaf það til kynna.

Þetta var þriðji níu pílna leikur Littlers í viðureign í sjónvarpi og annar í úrvalsdeildinni.

Littler hefur unnið þrjú keppniskvöld í úrvalsdeildinni á árinu. Hann er efstur af keppendunum átta með 21 stig. Næstur kemur Luke Humphries með fimmtán stig. Van Gerwen er svo í 3. sætinu með þrettán stig.

Áttunda keppniskvöld úrvalsdeildarinnar verður í Newcastle næsta fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×