Skoðun

Tannheilsa skiptir höfuð máli

Valdís Marselía Þórðardóttir skrifar

Tannheilsa skiptir höfuðmáli þegar kemur að almennri heilsu og vellíðan. Það ætti að vera og er einfalt skref að grípa í tannburstan tvisvar á dag með flúortannkremi en einnig að fjarlægja bakteríur milli tanna einu sinni á dag með tannþræði, en þessi litla venja getur skipt sköpum fyrir heilsu fólks.

Það má ekki gleyma mikilvægi tannþráðs. Hann er mikilvægur þáttur í bættri tannheilsu og getur fyrirbyggt vandamál sem geta haft áhrif á heilsu okkar til lengri tíma litið.

Í starfinu mínu sem tannlæknir, er ég stöðugt að hvetja fólk til að hugsa sem best um tennurnar sínar. Sumir hafa jafnvel sagt að ég sé að vinna gegn sjálfri mér með þessum boðskap, því færri tannskemmdir gætu þýtt minna að gera fyrir tannlækna. En í raun er það alls ekki málið. Tannlæknar leggja mikla áheyrslu á forvarnar og fræðslu í sinni vinnu. Það er lykilatriði að grípa vandamál áður en þau stækka og valda meiri heilsufarslegum afleiðingum. Því meira sem við getum frætt og stuðlað að forvörnum, því betri verður tannheilsa samfélagsins.

Ef einhver gæti síðan bent mér á markaðsstjórann sem fann upp á „7-skref-húðrútínu“, þá væri ég til í að tala við hann. Mig langar að finna leið til að fá fólk til að tileinka sér „2-skrefa“-tannhirðurútínu: tannburstun með flúortannkremi og tannþráður daglega. Ekki nóg með að það dragi úr tíðni tannskemda, heldur myndi það einnig bæta andardrátt, stuðla að betri almennri heilsu með því að hindra að bakteríur dreifist um líkamann, og jafnframt efla sjálfstraust með hreinu og fallegu brosi.

Ef ég mætti biðja þig, kæri lesandi, um að taka eitt með þér úr þessum pistli í tilefni tannverndarvikunnar, þá væri það að tannheilsa er grunnurinn að almennri heilsu þinni. Ég vona innilega að þú hugir vel að sjálfum þér, gefir þér nokkrar mínútur á dag til að sinna þessari mikilvægu rútínu og njótir allra þeirra kosta sem henni fylgja.

Höfundur er tannlæknir.




Skoðun

Sjá meira


×