Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Klukkan hringir klukkan 06.50 því að hún Eva mín er alveg grjóthörð í að fara í ræktina alla morgna. Sjálfur vill ég kúra til hálfátta að minnsta kost, enda finnst mér agalega gott að gefa mér góðan tíma á morgnana til að stilla mig af inní daginn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Fæ mér kaffi og horfi útá sjóinn, fer með morgunbæn og þakka fyrir það sem mestu skiptir;
Fjölskyldan og heilsan.
Síðan tökum við Kjartan Sigurjón sonur minn morgunfund og skipuleggjum daginn, en við vinnum saman og hann býr heima.“
Hvaða sjónvarpssería eða kvikmynd fær þig alltaf til að tárast?
„Ég er ekki mikill sjónvarpsmaður og vill helst verja tíma mínum í eithvað annað enn að glápa á sjónvarp. En ef ég ætti að velja eina mynd sem mér finnst bera af er það kvikmyndin Forest Gump; Hún hefur allt og er svolítið eins og lífð er.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Við vorum að koma með nýjjung á fasteignamarkaðinn; kaupumeignir.is sem felst í því að stíga inn og kaupa eignir með staðgreiðslu til að losa upp keðjur og koma hreyfingu á hlutina. Þetta er viðbót við rekstur fasteignafélagsins Hvalsnes sem ég rek.
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Krota á miða á kvöldin yfir það sem liggur fyrir daginn eftir og svo rýni ég í miðann yfir kaffibollanum morguninn eftir.
Þá get ég líka metið það hvort maður sé rektrarhæfur yfirleitt ha ha...
En já, hann virkar ólíkt betur mannshugurinn að morgni og ferskur inn í daginn eða þreyttur að kveldi.
Ég er yfirleitt ekki lengi að koma mér að hlutunum, er mátulega hvatvís og svo heppinn að vera ekki með verkkvíða.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Hef alltaf verið svona klukkan tólf maður en hún Eva kærasta mín er farin að reka mig upp í um hálf ellefu til ellefu, sem er mjög gott því þá fær maður sinn svefn. Ég er því aðhaldinu feginn því mig vantar aðhald til að ná góðum svefni.“