Körfubolti

Jóhann Þór: Kane og Ólafur hefðu getað spilað

Hjörvar Ólafsson skrifar
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur Vísir/Viktor Freyr

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, segir að slakur fyrri hálfleikur hafði orðið sínu liði að falli þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Val í næstsíðustu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld. 

„Það vantaði allan neista, vilja og baráttu í fyrri hálfleikinn og það olli mér vonbrigðum. Við söknuðum klárlega Kane og Óla en ég hefði viljað sjá mína menn mæta þeim betur í líkamlegri baráttu og veita meiri mótspyrnu en raun bar vitni,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, súr að leik loknum.

„Við vorum hins vegar skömminni skárri í seinni hálfleik og sýndum að einhverju leyti hvað í okkur býr. Það var hins vegar of lítið og of seint en eitthvað jákvætt þar sem við getum tekið með okkur í hléið á deildinni sem fram undan er,“ sagði Jóhann Þór þar að auki.

Aðsprurður um stöðuna á Kane og Ólafi og hvað hann þyrfti að leggja áherslu á í leikjapásunni sagði Jóhann: „Ólafur er í raun og veru búinn að vera að tjassla sér saman og spila meiddur frá því eftir áramót.

Kane er svo með þursabit í bakinu og þurfti á hvíld að halda. Þeir hefðu alveg getað spilað þennan leik en eftir að hafa ráðfært okkur við fagaðila þá var tekin ákvörðun um að þeir myndu ekki spila. Þeir mæta ferskir eins og allt liðið eftir pásuna. Við þurfum að fara vel yfir varnarleikinn í hléinu og fínpússa sóknarleikinnk“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×