Það eru börn á leikskólanum Laufásborg sem halda alla leið til Rúmeníu í vor til að taka þátt á mótinu og verður íslenski hópurinn sá yngsti sem keppir þar - og jafnframt einu leikskólabörnin. Skák hefur verið kennt á leikskólanum frá árinu 2008 þegar að Omar Salama hóf þar störf. Skákstarfið hefur vaxið mikið síðan þá og hefur leikskólinn sent nokkra hópa á EM í íþróttinni.
Hildur María Haarde er foreldri eins af liðsmönnum skáksveitarinnar og segir hún mikla eftirvæntingu ríkja innan hópsins. „Þetta er auðvitað alveg einstakt og það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu verkefni. Börnin geta ekki beðið eftir að keppa við keppendur frá öðrum löndum,“ segir hún.

Til að hópurinn komist alla leið á leiðarenda þá hafa foreldrar og fleiri hjálpað til að safna fyrir ferðinni. Þau hafa selt múslí, gefið út matarbók, selt skákborð og klukkur og margt fleira síðustu mánuði.
Á föstudaginn næstkomandi ætla nokkrir af fremstu tónlistarmönnum landsins að hjálpa krökkunum og halda tónleika í Safnahúsinu undir yfirskriftinni Kærleikstónleikar.
Þau sem stíga á stokk eru GDRN, Arnmundur Backman, Unnsteinn Manuel, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar. Tónleikarnir hefjast klukkan 21 en húsið opnar klukkan 20.