Innlent

Sögðu 23 starfs­mönnum slátur­hússins upp á föstu­dag

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ágúst Torfi segir Kjarnafæði Norðlenska gera það sem þau geta til að milda áhrifin hjá þeim sem var sagt upp á föstudag.
Ágúst Torfi segir Kjarnafæði Norðlenska gera það sem þau geta til að milda áhrifin hjá þeim sem var sagt upp á föstudag. Samsett

Tuttugu og þremur af tuttugu og átta starfsmönnum sláturhúss SAH afurða á Blönduósi sagt upp á föstudag. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Kjarnafæðis Norðlenska, segir uppsagnirnar hluta af hagræðingaraðgerðum Norðlenska Kjarnafæðis. Tekin var ákvörðun um að slátra ekki sauðfé í sláturhúsinu í haust. 

„Við erum að starfa í gríðarlega þröngu rekstrarumhverfi og við töpuðum peningum í fyrra og framleiðsla er á leið niður hjá bænum og það stýrir auðvitað álagi á sláturhús. Okkur er nauðugur einn kostur. Við verðum að hagræða,“ segir Ágúst Torfi. Fyrst var greint frá uppsögnunum á vef RÚV. 

Í tilkynningu á vef SAH afurða á föstudag kom fram að tekin hefði verið ákvörðun um að sauðfé yrði ekki slátrað á Blönduósi haustið 2025.

„Ákvörðunin tengist nauðsynlegri hagræðingu í rekstri Kjarnafæðis Norðlenska. Rekstur félagsins var þungur árið 2024 m.a. vegna mikilla kostnaðarhækkana og rík þörf á hagræðingu ef hægt á að vera að halda áfram á þeirri vegferð að bjóða neytendum vörur á samkeppnishæfu verði á sama tíma og verð til bænda þróist með ásættanlegum hætti. Áætlað er að færa þá starfsemi sem hefur verið utan sláturtíðar í starfsstöðinni á Blönduósi til annarra starfsstöðva fyrirtækisins í áföngum,“ segir í tilkynningunni.

Erlend samkeppni að harðna

Ágúst Torfi segir samkeppni við útlönd alltaf að harðna og aukast. Tollaverndin rýrni á sama tíma og framleiðendur minna varin fyrir innflutningi.

„Eina leiðin fyrir okkur að keppa við það er að lækka framleiðslukostnað innanlands eins og okkur er frekast unnt og það verður ekki gert án þess að hagræða.“

Hann segir töluverð umsvif þó hafa verið í sláturhúsinu og það taki lengri tíma en nemur uppsagnarfresti að vinda ofan af starfseminni. Því hafi ekki öllum starfsmönnum verið sagt upp. Ágúst Torfi tilkynnti fólki sjálfur um uppsagnirnar síðasta föstudag.

„Þetta eru erfiðar fréttir fyrir fólk að fá og við gerum það sem í okkar valdi stendur til að milda áhrifin eins og okkur er unnt og aðstoða fólk í atvinnuleit. Ef einhver vill færa sig á aðrar starfsstöðvar félagsins þá er það eitthvað sem við erum mjög opin fyrir, þó að við hvetjum fólk ekki endilega til að flytja frá staðnum. Ef það kýs það sjálft getum við aðstoðað við það. Við reynum að gera þetta eins vel og hægt er.“

Hann á von á því að uppsagnirnar séu stærsta hagræðingaraðgerðin sem Kjarnafæði Norðlenska ræðst í á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×