Handbolti

Til­kynnti að hún væri hætt í hjart­næmu við­tali

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karen Knútsdóttir er ein fremsta handboltakona sem Ísland hefur alið.
Karen Knútsdóttir er ein fremsta handboltakona sem Ísland hefur alið. vísir/hulda margrét

Karen Knútsdóttir hefur leikið sinn síðasta leik á ferlinum. Hún tilkynnti þetta eftir leik Fram og Hauka í úrslitum Powerade bikars kvenna í gær.

Haukar unnu leikinn, 20-25, og urðu þar með bikarmeistarar í fyrsta sinn í átján ár.

Eftir leikinn fór Karen í viðtal við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson á RÚV. Hún átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hún greindi frá því að þetta hefði verið hennar síðasti leikur á ferlinum.

„Já, þetta er í raun bara minn allra síðasti leikur. Ég á von á mínu þriðja barni. Ég var að vonast til að kveðja þetta betur. En það var gaman að taka þátt í þessari helgi. Og, já, gaman að fá spila handbolta hérna,“ sagði Karen.

Leikstjórnandinn tók fram skóna í haust eftir hlé en gaf það út að skórnir myndu fara aftur upp í hillu eftir tímabilið.

Karen lék allan sinn feril á Íslandi með Fram og varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með liðinu (2018 og 2022). Hún vann bikarkeppnina einnig fjórum sinnum (2010, 2011, 2018 og 2020).

Hin 35 ára Karen lék með Blomberg-Lippe í Þýskalandi á árunum 2011-13, SønderjyskE í Danmörku 2013-14 og Nice í Frakklandi 2014-17.

Karen lék 106 landsleiki og skoraði 371 mark. Hún lék með landsliðinu á EM 2010 og 2012 og HM 2011.

Karen er einn markahæsti leikmaður í sögu íslenska kvennalandsliðsins.vísir/bára



Fleiri fréttir

Sjá meira


×