Venezia hélt jöfnu gegn Atalanta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mikael Egill Ellertsson í baráttu við Juan Cuadrado í leik Atalanta og Venezia í dag.
Mikael Egill Ellertsson í baráttu við Juan Cuadrado í leik Atalanta og Venezia í dag. ap/Stefano Nicoli

Atalanta og Venezia gerðu markalaust jafntefli í ítölsku úrvalsdeildinni í dag. Mikael Egill Ellertsson lék allan leikinn fyrir Venezia sem er í harðri fallbaráttu.

Ekkert lið hefur skorað meira en Atalanta í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur á meðan Venezia er í hópi þeirra liða sem hafa fengið á sig flest mörk.

Feneyingar sýndu í dag að þeir geta varist vel og þeir héldu hreinu gegn Bergamo-liðinu. Venezia hélt einnig hreinu í markalausu jafntefli gegn Lazio í síðustu umferð.

Venezia er áfram í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar, nú með átján stig. Liðið er fimm stigum frá öruggu sæti.

Mikael lék á vinstri kantinum í dag og stóð fyrir sínu. Hann er búinn að semja við Genoa en klárar tímabilið með Venezia. Bjarki Steinn Bjarkason sat allan tímann á bekknum hjá Feneyjaliðinu.

Atalanta er í 3. sæti deildarinnar með 55 stig, einu stigi á eftir Napoli, sem er í 2. sætinu, og tveimur stigum á eftir toppliði Inter. Atalanta hefur leikið einum leik meira en Napoli og Inter.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira