Rannsókn á andláti hjónanna stendur enn yfir en dánarorsök þeirra liggur enn ekki fyrir. Daily Mail hafði eftir Leslie Hackman, dóttur leikarans, á dögunum að faðir hennar hafði verið við hestaheilsu áður en hann fannst látinn. Hún hafi ekki merkt neitt undarlegt í samskiptum við föður sinn áður en hann lést.
Adan Mendoza lögreglustjóri í Nýju Mexíkó sagði hjónin hafa verið látin í einhvern tíma þegar lík þeirra fundust. Lík Hackmans fannst nærri eldhúsi heimilisins en lík Arakawa inni á salerni. Þýskur fjárhundur þeirra fannst jafnframt dauður í húsinu.
Í tilkynningu frá lögreglustjóranum í Santa Fe sem BBC vísar í segir að kolefnismónoxíð hafi ekki fundist í blóðsýni hinna látnu. Þegar hefði lögregla athugað hvort gasleki hafði orðið á heimilinu en engin ummerki um slíkan leka hafi fundist.
Búið sé að leggja inn beiðni fyrir bæði krufningu og eiturefnaprófi á líkum hjónanna en nokkrir mánuðir gætu liðið þar til niðurstöður liggja fyrir.
Lyfjaglas og töflur á fundust á víð og dreif á vaskborðinu nærri Arakawa á vettvangi en sem fyrr greinir liggur ekki fyrir hvort lyfin eigi þátt í andláti hennar. Lyfin sem fundust á vettvangi voru hefðbundin skjaldkirtils- og blóðþrýstingslyf.