Körfubolti

„Til­efnið stórt og sterkt að landa sigri“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Kjartan Atli á hliðarlínunni í leik með Álftanesi. 
Kjartan Atli á hliðarlínunni í leik með Álftanesi.  Vísir/Vilhelm

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, var kampakátur með sigur liðsins gegn Tindastóli í 19. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í Kaldalónshöllinni í kvöld. 

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur og bara frábært kvöld yfir höfuð. Það var vel mætt hjá stuðningsmönnum beggja liða og það var geggjað að heyra stúkurnar kallast á. Tilefnið og viðburðurinn í heild sinni var stór og sterkt að ná að landa sigri í þessum aðstæðum.

Við byrjuðum leikinn mjög vel en það mátti alveg vita að jafn gott lið og Tindastóll er myndi koma sér inn í leikinn eins og varð raunin,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness um þennan mikilvæga sigur .

„Þeir fóru að setja stór þriggja stiga skot og stemmingin var þeirra megin í þriðja leikhluta. Við náðum sem betur fer að stöðva þá blæðingu og sýndum mikinn karakter, gæði og yfirvegun undir lokin. Þessi sigur var þýðingamikill í þeim leðjuslag sem fram undan er í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Kjartan Atli enn fremur.

„Nú er bara að fagna þessu vel og innilega í kvöld en á morgun er bara að reima á sig skóna, taka endurheimt og skoða þennan leik. Við förum sáttir á koddann í kvöld en svo hefst bara undirbúningur undir annan stórleik á móti Stjörnunni. Við þurfum bara að taka einn dag í einu og einn leik í einu. Það er sama gamla tuggan,“ sagði þjálfarinn um framhaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×