Veður

Lægða­gangur og um­hleypingar næstu daga

Atli Ísleifsson skrifar
Spáð er suðvestlægari átt og má reikna með skúrum eða slydduéljum eftir hádegi.
Spáð er suðvestlægari átt og má reikna með skúrum eða slydduéljum eftir hádegi. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil lægð á Grænlandshafi stýrir veðrinu í dag og má reikna með sunnan hvassviðri eða stormi og rigningu sunnan- og vestantil. Úrkomulítið verður þó á Norðausturlandi.

Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við mildu veðri þar sem hiti verður á bilinu tvö til tíu stig. Spáð er vægu frosti og éljum í kvöld.

„Suðvestlægari og skúrir eða slydduél eftir hádegi. Þá dregur heldur úr vindi og kólnar smám saman, víða él og vægt frost í kvöld.

Áfram suðvestlæg átt og él eða slydduél á morgun. Vaxandi sunnanátt seint á morgun með rigningu og hlýnandi veðri.

Næstu daga er útlit fyrir lægðagang og umhleypingasamt veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðvestan 13-20 m/s og él eða slydduél, en úrkomulítið á Austurlandi. Dregur úr vindi og fer að rigna sunnan- og vestanlands síðdegis, hiti 0 til 5 stig. Vaxandi sunnanátt, bætir í úrkomu um kvöldið og hlýnar.

Á sunnudag: Suðvestan 15-20 og él eða slydduél, en bjart með köflum um landið norðaustanvert. Kólnar í veðri.

Á mánudag: Minnkandi vestan- og suðvestanátt og allvíða él, 5-13 síðdegis. Hiti í kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt um kvöldið með rigningu eða slyddu sunnan- og vestantil.

Á þriðjudag: Suðaustan 10-18, talsverð rigning eða slydda og hlýnar um tíma, en úrkomuminna norðaustantil. Suðvestan 10-15 síðdegis og styttir víða upp, en dálítil él sunnan- og vestanlands. Víða vægt frost um kvöldið.

Á miðvikudag: Fremur hæg suðlæg átt og dálítil él vestanlands, frost 0 til 5 stig. Gengur í ákveðna suðaustanátt með rigningu eða slyddu síðdegis og hlýnar.

Á fimmtudag: Útlit fyrir suðvestlæga átt og víða dálítil él, en úrkomulítið síðdegis. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×