Víða má reikna með golu eða kalda og éljum, en yfirleitt verður þurrt á Norðausturlandi.
Á vef Veðurstofunnar segir að gera megi ráð fyrir frosti á bilinu núll til sjö stigum.
„Suðvestan kaldi eða strekkingur á morgun og él eða slydduél, en áfram úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hlýnandi veður.
Annað kvöld kemur djúp lægð inn á Grænlandshaf. Henni fylgir vaxandi suðaustanátt og það fer að rigna sunnan- og vestanlands, talsverð rigning á þeim slóðum um nóttina.
Sunnan hvassviðri eða stormur á föstudag og vætusamt og hlýtt veður, en úrkomuminna norðaustantil. Síðdegis dregur úr vindi og það kólnar með éljum um landið sunnan- og vestanvert.
Um helgina er svo útlit fyrir áframhaldandi lægðagang með umhleypingasömu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Suðvestan 8-13 m/s og él, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Hiti kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt um kvöldið og fer að rigna suðvestantil. Hlýnar í veðri.
Á föstudag: Sunnan 15-25 og rigning, hvassast vestantil, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 2 til 9 stig. Suðvestan 13-20 síðdegis og kólnar með éljum um landið sunnan- og vestanvert.
Á laugardag: Suðvestan 15-23 um morguninn og skúrir eða él, en úrkomulítið á Austurlandi. Hiti 0 til 5 stig. Dregur síðan úr vindi, suðvestan 8-15 seinnipartinn og hlýnar með rigningu sunnan- og vestanlands, en hvessir aftur um kvöldið.
Á sunnudag: Ákveðin suðvestanátt og kólnar með éljum, en þurrt að kalla um landið norðaustanvert.
Á mánudag: Vestan- og suðvestanátt og allvíða él. Hiti 0 til 4 stig. Hlýnar með rigningu um kvöldið.
Á þriðjudag: Suðvestanátt og skúrir eða él, en styttir upp á Norðaustur- og Austurlandi.