Körfubolti

„Geitin“ í kvennakörfunni hætt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diana Taurasi gengur af velli í síðasta skiptið á WNBA ferlinum eftir tap Phoenix Mercury á móti Minnesota Lynx í úrslitakeppninni í september í fyrra.
Diana Taurasi gengur af velli í síðasta skiptið á WNBA ferlinum eftir tap Phoenix Mercury á móti Minnesota Lynx í úrslitakeppninni í september í fyrra. Getty/Stephen Maturen

Diana Taurasi, stigahæsti leikmaður WNBA deildarinnar í körfubolta frá upphafi, hefur ákveðið að setja skóna upp á hillu. Hún tilkynnti þetta í viðtali við Time tímaritið.

„Andlega og líkamlega þá kem ég ekki meiru fyrir. Það er eiginlega besta leiðin til að lýsa hvernig mér líður. Ég er full og ég er ánægð,“ sagði Diana Taurasi.

Áhugafólk um WNBA deildina kaus hana besta leikmanninn í sögunni og hún hefur spilað í deildinni í tvo áratugi.

Hún er „Geitin“ í kvennakörfunni að mati langflestra en þar er vísað í skammstöfunina „GOAT“ eða „Greatest of all tíme“.

Hún er 42 ára gömul og hefur unnið allt á sínum ferli, allt frá háskólaboltanum upp í landslið. Í ágúst síðastliðnum þá vann hún sitt sjötta Ólympíugull.

Taurasi endaði með 10.646 stig í WNBA en hún er sú eina sem hefur komist yfir tíu þúsund sitgin. Hún er einnig sú sem hefur skorað flesta þrista í sögu deildarinnar.

Hún spilaði alla tíð með Phoenix Mercury og varð WNBA meistari þrisvar sinnum eða árin 2007, 2009 og 2014.

Taurasi varð fimm sinnum stigahæsti leikmaður tímabilsins og var kostin mikilvægasti leikmaðurinn tímabilið 2009.

Í 565 deildarleikjum á ferlinum þá var hún með 18,8 stig og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×