Körfubolti

„Hún er búin að vera al­gjör klettur í þessu öllu“

Aron Guðmundsson skrifar
Martin Hermannsson segir unnustu sína, Önnu Maríu, klettinn í fjölskyldunni en þau búa í fjarbúð þessa mánuðina. Martin úti í Þýskalandi á meðan að Anna og synir þeirra tveir eru hér heima á Íslandi
Martin Hermannsson segir unnustu sína, Önnu Maríu, klettinn í fjölskyldunni en þau búa í fjarbúð þessa mánuðina. Martin úti í Þýskalandi á meðan að Anna og synir þeirra tveir eru hér heima á Íslandi Vísir/Samsett mynd

Líf at­vinnu­mannsins er ekki alltaf dans á rósum. Lands­liðs­fyrir­liðinn í körfu­bolta, Martin Her­manns­son, spilar sem at­vinnu­maður með liði Alba Berlin í Þýska­landi og meiðsli hafa sett strik í reikninginn hjá honum. Þá býr hann fjarri fjöl­skyldu sinni úti í Þýska­landi.

Martin er kominn á fullt aftur innan vallar og sýndi vel hvað í sér býr á dögunum í Laugar­dals­höllinni í fræknum sigri á Tyrkjum sem gull­tryggði EM sætið. Frábær heim­koma þar sem að Martin náði ekki bara að leika listir sínar með ís­lenska lands­liðinu, heldur einnig að heimsækja fjöl­skyldu sína.

Martin og unnusta hans, Anna María Bjarna­dóttir, ákváðu að hún skyldi flytja hingað til lands með syni þeirra tvo og á meðan ein­beitir Martin sér að því að koma sér í besta mögu­lega standið úti í Þýskalandi og það getur tekið á.

„Þetta er rosa­lega upp og niður. Auðvitað er rosa­lega erfitt að vera frá fjöl­skyldunni. Erfitt að vera í öllum þessum mynd­símtölum. Sér í lagi upp á yngri son minn að gera, hann er að verða eins árs í næsta mánuði og á þessu tíma­bili ævinnar er hver dagur öðru­vísi,“ segir Martin í sam­tali við íþrótta­deild. „Það er erfitt oft á tíðum en á sama tíma ákváðum við konan að gera þetta svona í ár. Bara svo ég gæti líka verið að ein­beita mér að líkamanum og reyna koma í mér besta stand sem völ er á.“

Og ljóst hversu mikið Martin reiðir sig á sína konu.

„Hún er náttúru­lega búin að vera al­gjör klettur í þessu öllu saman. Ég gæti ekki gert það sem hún er að gera. Að vera ein með tvö börn og halda geðheilsu. Hún er kletturinn í okkar fjöl­skyldu og ég á henni mjög margt að þakka. Það var líka fal­leg stund að hafa þau öll á leiknum, knúsast eftir leik og að vera saman. Lífið sem at­vinnu­maður er upp og niður. Þetta er ekkert alltaf dans á rósum en gott á margan hátt. Svona er þetta núna. Þau eru hérna heima á Ís­landi og eldri sonurinn elskar það að vera í íþróttum og skólanum hér. Á sama tíma fær konan allt það bak­land sem hún þarf. Auðvitað er það líka gott á þann hátt en oft erfitt að vera í burtu. Það er ekkert launungar­mál.“


Tengdar fréttir

Martin: „Fór rosa­lega fyrir brjóstið á mér að heyra það“

Martin Her­manns­son, fyrir­liði ís­lenska lands­liðsins í körfu­bolta, segir leikinn gegn Tyrkjum þar sem að lands­liðið tryggði sæti sitt á EM með skemmti­legustu leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Hins vegar fór um­ræðan um liðið fyrir leikinn fyrir brjóstið á honum.

Elvar og Martin: Hvernig þetta byrjaði, hvernig þetta gengur

Jafnaldrarnir og vinirnir Elvar Már Friðriksson og Martin Hermannsson áttu stóran þátt í að Ísland tryggði sér sæti á EM í körfubolta með sigri á Tyrklandi í Laugardalshöll í gær. Eftir leikinn birti umboðsmaður þeirra félaga skemmtilega gamla mynd af þeim sem sýnir hversu lengi þeir hafa fylgst að.

Uppgjörið: Ís­land - Tyrk­land 83-71 | Ís­land tryggði sér sæti á EM

Ísland tryggði sér sæti á Evrópumótið í körfubolta í sumar með 83-71 sigri gegn Tyrklandi í lokaleik undankeppninnar. Strákarnir okkar þurftu sigur í kvöld til að tryggja sætið og kláruðu verkefnið með stæl gegn gríðarsterku tyrknesku liði. Ísland byrjaði leikinn stórkostlega og sigurinn varð aldrei tvísýnn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×