Körfubolti

Berjast um að fá Ís­land til sín á EM: „Viljum fá eitt­hvað á móti“

Aron Guðmundsson skrifar
Martin Hermannsson ræðst í átt að körfunni í leiknum
Martin Hermannsson ræðst í átt að körfunni í leiknum Vísir/Anton Brink

Áhuginn er mikill hjá gest­gjafaþjóðum EM í körfu­bolta að fá Ís­land í sinn riðil að sögn Hannesar S. Jóns­sonar, fram­kvæmda­stjóra KKÍ, sem bindur vonir við að með sæti á stór­móti verði ís­lenskur körfu­bolti á toppnum er kemur að fjár­fram­lagi til lands­liðs­starfsins.

„Þetta var bara í einu orði sagt stur­lað,“ segir Hannes í sam­tali við íþrótta­deild um stundina sigursælu í gærkvöldi þegar að íslenska karlalandsliðið tryggði sér farseðilinn á EM með glæstum sigri á Tyrklandi í Laugardalshöll. 

„Eitt­hvað sem maður verður bara klökkur við að tala um. Þetta er eitt­hvað sem svo margir hafa lagt á sig til að verða að veru­leika. Maður hefur lent í ýmsu á undan­förnum árum. Við höfum verið sett niður um flokka út af fjár­munum, þurft að berjast í því. Starfs­fólkið, stjórnin, leik­mennirnir, þjálfara­t­eymið, það eru svo margir sem koma að svona. Þetta er bara mjög til­finningaþrungið. Ég hef nú aldrei unnið titil á ævinni í körfu­bolta en get ímyndað mér að þetta sé eins og að vinna Ís­lands­meistara­titilinn eða eitt­hvað álíka og meira. Þetta er bara geggjuð stund fyrir ís­lenskan körfu­bolta.“

Trúir því að þau sem fari með af­reksmál í landinu séu búin að sjá ljósið

Hannes bindur vonir við að KKÍ og ís­lenskur körfu­bolti verði nú metinn ofar og settur í hærri flokk þegar að kemur að fjár­veitingum en ekki öfugt eins og raun síðustu ára hefur verið. ÍSÍ fékk rétt rúmar þrjátíu milljónir úr auka út­hlutun af­reks­sjóðs ÍSÍ í síðustu viku en þarf meira.

„Núna eru komnar nýjar reglur. Það var farið í vinnu og það tóku nýjar reglur gildi hjá af­reks­sjóði ÍSÍ í fyrra. Það kom síðan inn meiri peningur frá ríkis­valdinu sem var út­hlutað núna. Ég bind vonir við að sú vinna og það sem við höfum barist fyrir á undan­förnum árum, á meðan að við fengum lítið fjár­magn, fari að skila sér núna. En það þýðir það samt að við höfum verið að skila tapi síðustu árin. Þetta hefur kostað okkur það en það er bara beinn og breiður vegur fram­undan.“

Troðfull Laugardalshöll studdi strákana okkarVísir/Anton Brink

„Ég trúi því að nú sé af­reks­sjóður og þau sem að fara með af­reksmál í landinu búin að sjá ljósið. Að ís­lenskur körfu­bolti á bara skilið að vera í toppnum í fjár­fram­lagi til lands­liðs­starfsins okkar. Ég hef bara þá trú að þannig verði það næstu árin. Ég geri líka ráð fyrir því, þar sem að við erum nú komin á loka­mót, að við fáum auka fjár­mögnun frá af­reks­sjóði út frá því sem að kom inn í síðustu viku og hef strax ítrekað það. Ég geri ráð fyrir því að við fáum meira fjár­magn aftur úr af­reks­sjóði þar sem að loka­mótið er klárt. 

Nú­mer eitt, tvö og þrjú er að vera jákvæð núna. Það er búin að vera þrauta­ganga að ganga í gegnum þetta. Það breyttist ýmis­legt í fyrra. Ríkis­valdið þarf að halda áfram að koma með aukið fjár­magn. Það kom aukið fjár­magn frá fyrr­verandi ríkis­stjórn á síðasta ári sem var út­deilt fyrir nokkrum dögum. Það þarf að vinna áfram að því að það fjár­magn verði enn meira því ég held að allir sjái það og viti að af­reksíþróttirnar, lands­liðin okkar sama í hvaða íþrótt það er. Þetta er, ásamt fólkinu okkar í menningum og listum, okkar bestu sendi­herrar og frúr á Ís­landi í dag.“

Ekki margar milljónir frá FIBA fyrir EM sætið

En það að tryggja EM sætið eitt og sér er þess ekki valdandi að stríður straumur peninga flæði nú inn um dyr KKÍ frá Alþjóða körfu­knatt­leiks­sam­bandinu.

„Nei, því miður þá er það ekki þannig. Það mun eitt­hvað fjár­magn koma inn en meira til þess að ná yfir aðeins hluta kostnaðarins við þetta loka­mót. Því miður er ekki mikið fjár­magn sem kemur frá FIBA en sam­bandið hefur þó verið að koma með auka fjár­magn inn í sam­böndin á síðustu tíu til þrettán árum. Það hefur verið að aukast jafnt og þétt. Við munum fá eitt­hvað smá fyrir að komast á EM en þetta verða ekki ein­hverjir tugir milljóna, heldur nokkrar milljónir sem við fáum.“

Gleðin var ósvikin í leikslok hjá leikmönnum ÍslandsVísir/Anton Brink

Það kosti um og yfir fjörutíu milljónir fyrir KKÍ að fara með ís­lenska karla­lands­liðið á komandi stór­mót.

„Ef maður tekur stór­mótið sjálft, undir­búninginn og annað þá erum við að áætla að það kosti okkur um fjörutíu milljónir króna. Undir­búningurinn og stór­mótið sjálft þar með talið. Það er ekki undir fjörutíu milljónum sem bara það kostar. Þá kostar það að komast á stór­mót of­boðs­lega mikið í að­dragandanum. Allir þessir riðlar, þessir lands­leikja­gluggar sem við erum í og tökum þátt í með glöðu geði. Einn svona lands­leikja­gluggi er að kosta í kringum fimmtán milljónir, ekki undir fimmtán milljónum. Bara þessir tveir leikir sem við vorum í núna með karla­liðinu. Svo erum við með tvo leiki hjá kvenna­liðinu líka. Þetta eru á bilinu fimmtán til tuttugu milljónir króna að lág­marki hver gluggi fyrir sig.“

Vilja allir fá Íslendingana til sín

Komandi Evrópumót verður haldið í fjórum borgum í fjórum mis­munandi löndum: Tampere í Finn­landi, Katowice í Póllandi, Riga í Lett­landi og Limassol á Kýpur. Gest­gjafaþjóðirnar eru í þeirri stöðu að geta valið eina þjóð til að leika í sínum riðli og óhætt er að segja að ís­lenska lands­liðið sé eftir­sótt og komnar vís­bendingar um það hvar liðið gæti leikið á EM.

„Það var byrjað að hafa sam­band áður en við tryggðum okkur á mótið og erum í góðu sam­bandi við þessi lönd. Strax í gærkvöldi fékk ég nokkur símtöl, meðal annars frá Finn­landi og Póllandi. Við munum skoða stöðuna næstu daga með öllum. Ég veit til þess að Kýpur er búið að velja Grikk­land í sinn riðil. Þá eru síðan Lettarnir eftir og ég hef meira að segja heyrt aðeins frá þeim. Ég veit að bæði Finnarnir og Pól­verjarnir hafa áhuga á þessu og þá taka bara við samninga­viðræður sem við förum í á næstu dögum og reynum að sjá hvað kemur út úr því. Nú­mer eitt, tvö og þrjú erum við komin á EM. Það var það sem að var okkar aðalmál í gærkvöldi.“

Martin Hermannsson hleður í eitt af skotum sínum í leiknumVísir/Anton Brink

Og samnings­staða KKÍ þegar kemur að því að velja leiks­stað ís­lenska lands­liðsins á EM er nokkuð sterk.

„Það vilja allir fá Ís­lendingana til sína. Það munu fullt af Ís­lendingum mæta á svæðið og við erum þá að fara skilja eftir eitt­hvað fjár­magn í þeirri borg þar sem að þetta fer fram í viðkomandi landi. Við getum verið að semja um ýmis­legt sem við kemur því að taka skref af þeim hagnaði sem um­rætt körfu­knatt­leiks­sam­band eða borg fær inn. Sem og einnig varðandi okkar aðstöðu. Mun viðkomandi til að mynda taka þátt í þeim kostnaði sem við verðum fyrir í viðkomandi borg? Ef við komum með fjár­magn inn þá viljum við fá eitt­hvað á móti. Það er ekki bara að við komum með fullt af áhorf­endum og sitjum síðan eftir með ekki neitt. Það er eitt af því sem við lærðum eftir að vera svo­kallaðir co-hosts með Finnunum árið 2017. Við erum öll reynslunni ríkari eftir að hafa tekið þátt í því. Við förum inn í þetta með það að mark­miði að reyna fá eitt­hvað út úr því fyrir sam­bandið og ís­lenskan körfu­bolta. Eitt­hvað annað en bara það að fá að vera í borginni og vita það með ein­hverjum smá fyrir­vara.“

Dregið verður í riðla fyrir EM þann 27.mars næst­komandi í Riga í Lett­landi. Þá verður endan­lega ljóst hverjir and­stæðingar Ís­lands verða á EM en að öllum líkindum verður orðið ljóst fyrir það hvar liðið mun spila og með hvaða gest­gjafaþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×