Körfubolti

Martin komst í hóp þeirra gömlu og mjög góðu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson á ferðinni með boltann í leiknum á móti Ungverjum á fimmtudaginn.
Martin Hermannsson á ferðinni með boltann í leiknum á móti Ungverjum á fimmtudaginn. FIBA Basketball

Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson komst á fimmtudagskvöldið í hóp þeirra elstu sem hafa skorað 25 stig eða meira í leik með íslenska karlalandsliðinu í körfubolta.

Martin spilaði sinn fyrsta landsleik í heilt ár og var með 25 stig og frábæra skotnýtingu í tapleiknum á móti Ungverjalandi.

Martin heldur upp á 31 árs afmælið sitt í haust og telst því ekki orðinn mjög gamall. Hann er engu að síður einn af þeim tíu elstu sem hafa skorað svona mikið í einum landsleik.

Metið á Pétur Karl Guðmundsson sem var 32 ára, eins mánaða og sextán daga þegar hann skoraði 25 stig á móti Kýpur í desember 1990.

Næstelstur til að ná þessu var Ívar Webster sem skoraði 25 stig á móti Englandi í maí 1987. Hann var þá 32 ára og 17 daga.

Þriðji elsti er Jónatan Bow sem skoraði 25 stig á móti Noregi í maí 1997. Hann var þá 31 árs, 3 mánaða og 3 daga.

Fjórði elsti er Valur Ingimundarson og Pétur er síðan aftur á listanum í fimmta sætinu.

Valur var 31 árs, tveggja mánaða og nítján daga þegar hann skoraði 25 stig á móti Englandi í maí 1993 en Pétur var þegar hann skoraði 33 stig á móti Eistlandi í lok desember 1989. Hann var þá 31 árs, eins mánaða og 29 daga gamall.

Aðrir sem náðu að vera eldri en Martin voru þeir Jón Sigurðsson (1982), Herbert Arnarson (2001), Guðmundur Bragason (1998), Jón Arnór Stefánsson (2013) og Teitur Örlygsson (1997).

Herbert náði þessu tvisvar eins og Pétur. Martin er hins vegar einn af þeim tíu elstu sem hafa skorað 25 stig eða meira í leik með landsliðinu.

Martin og félagar í íslenska landsliðinu mæta Tyrkjum í Laugardalshöllinni klukkan 19.30 í kvöld en sigri tryggja þeir sér sæti á Eurobasket. Það verður fylgst vel með leiknum hér inn á Vísi.

Pétur Guðmundsson er sá elsti sem náði að skora 25 stig eða meira í leik.
  • Elstu menn til að skora 25 stig fyrir Ísland:

    32 ára - 1 mánaða - 16 daga (1)
  • Pétur Karl Guðmundsson 25 stig á móti Englandi 1990
  • 32 ára - 0 mánaða - 17 daga (2)
  • Ívar Webster 25 stig á móti Englandi 1987
  • 31 árs - 3 mánaða - 3 daga (3)
  • Jónatan Bow 25 stig á móti Noregi 1997
  • 31 árs - 2 mánaða - 19 daga (4)
  • Valur Ingimundarson 25 stig á móti Englandi 1993
  • 31 árs - 1 mánaða - 29 daga (5)
  • Pétur Karl Guðmundsson 33 stig á móti Eistlandi 1989
  • 31 árs - 0 mánaða - 29 daga (6)
  • Jón Sigurðsson 25 stig á móti Englandi 1982
  • 31 árs - 0 mánaða - 28 daga (7)
  • Herbert Arnarson 35 stig á móti San Marínó 2001
  • 31 árs - 0 mánaða - 20 daga (8)
  • Guðmundur Bragason 27 stig á móti Noregi 1998
  • 30 ára - 10 mánaða - 23 daga (9)
  • Jón Arnór Stefánsson 32 stig á móti Búlgaríu 2013
  • 30 ára - 10 mánaða - 20 daga (10)
  • Teitur Örlygsson 27 stig á móti Eistlandi 1997
  • 30 ára - 8 mánaða - 23 daga (11)
  • Herbert Arnarson 27 stig á móti Portúgal 2001
  • 30 ára - 5 mánaða - 4 daga (12)
  • Martin Hermannsson 25 stig á móti Ungverjalandi 2025



Fleiri fréttir

Sjá meira


×