Alec Baldwin og eiginkona hans, Hilaria Baldwin, opnuðu sig um áhrif slyssins og réttarhaldanna á fjölskyldu þeirra í sýnishorni úr nýju raunveruleikaþáttunum The Baldwins sem hefja göngu sína á TLC þann 23. febrúar.
„Síðasta ár var alveg hræðilegt. Á tímabili lá ég í rúminu og sagði, ,Vá, krakkar. Ég get ekki farið á fætur.' Það er ekkert líkt mér. Ég er alls ekki þannig, ekki á neinn hátt, aldrei,“ sagði hann í sýnishorninu sem People fjallar um.
Þá sagði Hilaria að það væri öllum ljóst hvernig geðheilsu leikarans hefði hrakað eftir slysið. Ekki nóg með að áráttu- og þráhyggjuröskun (e. OCD) hans hafi versnað til muna heldur greindist einnig með áfallastreituröskun að hennar sögn.
Á hans myrkustu stundum hafi hann sagt: „Af hverju er ég enn hérna ef að slys þurfti að eiga sér stað þennan dag? Af hverju gat það ekki verið ég?“Þá hafi hann einnig sagt: „Ég er glaðari þegar ég sef en þegar ég vaki.“
Hélt ætíð fram sakleysi sínu
Slysið átti sér stað þann 27. október 2021 þegar skot hljóp úr leikmunabyssu sem Baldwin hélt á og hæfði kvikmyndatökustjórann Halynu Hutchins. Hún lést af sárum sínum.
Baldwin hélt alla tíð fram sakleysi sínu, sagðist hvorki hafa tekið í gikkinn né vitað af því að byssan væri hlaðin alvöru byssukúlum en ekki púðurskotum.
Baldwin var sakaður um manndráp af gáleysi en málinu var vísað frá dómi þegar dómari í Nýju-Mexíkó komst að þeirri niðurstöðu að ákæruvaldið og lögreglan hefðu haldið aftur af sönnunargögnum.
Vopnavörðurinn Hannah Gutierrez-Reed, sem átti að sinna eftirliti með vopnunum á kvikmyndasettinu, var hins vegar dæmd fyrir manndráp af gáleysi og hlaut átján mánaða fangelsisdóm. Hún hafði hlaðið byssuna og ruglast á gerviskotfærum og raunverulegum skotum. Þá var hún einnig timbruð daginn sem slysið átti sér stað.
Uppfært: Í fyrri útgáfa fréttar stóð að Halyna Hutchins væri áhættuleikkona en ekki kvikmyndatökumaður.