Pólska liðið Plock vann Füchse Berlín frá Þýskalandi 32-27 í gærkvöld. Þetta var afar mikilvægur sigur því Wisla Plock er í harðri baráttu um að komast upp úr A-riðli og í 12-liða úrslit Meistaradeildarinnar.
Viktor átti mjög góðan leik og varði 14 skot í leiknum, eða 34,15%, og skákaði markvörðum Füchse Berlín heldur betur en þeir vörðu samtals níu skot.
Ein markvarsla Viktors vakti sérstaka athygli og er númer eitt í myndbandi EHF sem sýnir fimm bestu markvörslur 12. umferðarinnar. Myndbandið má sjá hér að neðan.
𝗧𝗢𝗣 𝟱 𝗦𝗔𝗩𝗘𝗦 – round 12 #CLM
— EHF Champions League (@ehfcl) February 21, 2025
➡️ 1. Viktor HALLGRÍMSSON
➡️ 2. Ivan PESIC
➡️ 3. NIKOLA MITREVSKI
➡️ 4. Roland MIKLER
➡️ 5. Sergey HERNANDEZ
Fav one? #ehfcl #handball pic.twitter.com/9bJVxL2wDe
Viktor fagnaði vel með sínu stuðningsfólki eftir að hafa náð að teygja annan fótinn í boltann en Plock var manni færra á vellinum þegar þetta gerðist, í stöðunni 13-7.
Wisla Plock er nú jafnt Pelister frá Norður-Makedóníu að stigum, með átta stig, en með mun betri markatölu og því í 6. sæti A-riðilsins. Það er síðasta sætið inn í 12-liða úrslitin. Tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni sem lýkur 6. mars en hægt er að skoða stöðuna hér.