Handbolti

Mögnuð til­þrif Viktors Gísla á topplista EHF

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson átti frábæran leik í Meistaradeild Evrópu í vikunni.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti frábæran leik í Meistaradeild Evrópu í vikunni. EPA-EFE/Szymon Labinski

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson átti mögulega bestu tilþrifin í Meistaradeild Evrópu í handbolta í vikunni, í sigurleik með liði sínu Wisla Plock.

Pólska liðið Plock vann Füchse Berlín frá Þýskalandi 32-27 í gærkvöld. Þetta var afar mikilvægur sigur því Wisla Plock er í harðri baráttu um að komast upp úr A-riðli og í 12-liða úrslit Meistaradeildarinnar. 

Viktor átti mjög góðan leik og varði 14 skot í leiknum, eða 34,15%, og skákaði markvörðum Füchse Berlín heldur betur en þeir vörðu samtals níu skot. 

Ein markvarsla Viktors vakti sérstaka athygli og er númer eitt í myndbandi EHF sem sýnir fimm bestu markvörslur 12. umferðarinnar. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Viktor fagnaði vel með sínu stuðningsfólki eftir að hafa náð að teygja annan fótinn í boltann en Plock var manni færra á vellinum þegar þetta gerðist, í stöðunni 13-7.

Wisla Plock er nú jafnt Pelister frá Norður-Makedóníu að stigum, með átta stig, en með mun betri markatölu og því í 6. sæti A-riðilsins. Það er síðasta sætið inn í 12-liða úrslitin. Tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni sem lýkur 6. mars en hægt er að skoða stöðuna hér.


Tengdar fréttir

Viktor Gísli næst bestur á HM

Viktor Gísli Hallgrímsson var næst besti markvörður heimsmeistaramóts karla í handbolta samkvæmt tölfræðinni. Aðeins Daninn Emil Nielsen varði hlutfallslega meira.

Viktor Gísli besti maður Íslands á HM

Það kemur líklega fáum á óvart hver var efstur í einkunnagjöf Vísis á heimsmeistaramótinu í handbolta. Enginn lék betur hjá strákunum okkar á HM í ár en markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×