Íslenski boltinn

Grótta laus úr banni FIFA

Sindri Sverrisson skrifar
Gróttumenn, sem leika í 2. deild í sumar, virðast litlar upplýsingar hafa fengið frá FIFA áður en þeir voru komnir í félagaskiptabann.
Gróttumenn, sem leika í 2. deild í sumar, virðast litlar upplýsingar hafa fengið frá FIFA áður en þeir voru komnir í félagaskiptabann. vísir/Diego

Ekkert íslenskt félag er lengur á lista FIFA yfir félög í banni frá félagaskiptum. Bæði Fram og Grótta hafa nú greitt úr sínum málum og losnað af listanum.

Í lok síðasta mánaðar birtust nöfn bæði Fram og Gróttu á bannlista FIFA og þar stóð að þau mættu ekki fá til sín leikmenn í næstu þremur félagaskiptagluggum.

Bannið virðist hafa komið félögunum nokkuð á óvart og athygli vakti að KSÍ fékk ekki neinar upplýsingar frá FIFA, eins og vaninn hefur áður verið í svona málum í ljósi þess að KSÍ þarf að fylgja banninu eftir hérlendis.

Framarar voru fljótir að greiða úr sínu máli en það snerist um deilu varðandi greiðslu tveggja mánaðarlauna til Venesúelabúans Jesús Yendis sem lék með liðinu árið 2022.

Yendis mun hafa farið að láni heim til Venesúela í tíu mánuði, þegar hann átti enn eitt ár eftir af samningi sínum við Fram. Því átti hann tvo mánuði inni hjá Fram að lánsdvöl lokinni en mun samkvæmt því sem Vísir kemst næst ekki hafa mætt til vinnu þá mánuði, og því töldu Framarar sér ekki skylt að greiða honum launin.

Ekki er ljóst um nákvæmlega hvað mál Gróttu snerist en Þorsteinn Ingason, formaður knattspyrnudeildar Gróttu, sagði við Vísi fyrr í þessum mánuði að málið væri auðleyst. 

„Þetta kemur okkur mjög mikið á óvart. Við vorum ekki búin að fá neina meldingu frá FIFA um að það væri eitthvað mál í gangi gegn okkur. Ef við skuldum einhverjum einhvers staðar þá gerum við það bara upp. Við höfum engar áhyggjur af þessu og leysum þetta bara, um leið og einhver frá FIFA svarar okkur,“ sagði Þorsteinn fyrir tíu dögum og nú er Grótta laus af bannlistanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×