Um fimmtíu liðsmenn flugsveitarinnar eru staddir hér á landi og fjórar F/A-18 Hornet orrustuþotur, sem notaðar eru í loftrýmisgæsluna.
Flugsveitin hóf gæsluna fyrir um tveimur vikum og verður hér þar til í lok febrúar, þegar hún snýr aftur til Finnlands. Eins og gefur að skilja hefur veðrið sett nokkuð strik í reikninginn.
„Veðrið hefur sett strik í reikninginn hjá okkur. Stormurinn kom í veg fyrir að við gætum flogið æfingaflug en hafði ekki áhrif á NATO-loftrýmisgæslu okkar,“ segir Sampo Kojo, majór, sem stýrir gæslunni.

„Landslagið og útsýnið á Íslandi er algerlega einstakt. Útsýni sem þetta sér maður hvergi annars staðar. Þegar við byrjuðum var veðrið ekki svo gott en við gátum flogið í morgun og veðrið var gott að mestu leyti,“ bætir Lasse Louhela flugmaður við.
Finnar tóku þátt í varnaræfingu á Íslandi árið 2014 en þetta er í fyrsta sinn sem þeir sinna hér loftrýmisgæslu.

„Þetta er fyrsta loftrýmisgæsla okkar sem NATO-þjóð. Við vorum hér í fyrsta sinn árið 2014 en það var einungis í þjálfunarskyni. Í þetta sinn sýnum við fram á staðfestu Finnlands hvað varðar sameiginlegar varnir og viðfangsefni NATO auk þess auðvitað að tryggja lofthelgi Íslands í fyrsta sinn,“ segir Louhela.

Þeir segja tímana víðsjárverða og með því að sinna loftrýmisgæslu hér á Íslandi tryggi Finnar aukið öryggi fyrir öll aðildarríki NATO.
„Það eru tímamót fyrir okkur að koma hingað í fyrsta sinn og sinna löggæslu á Íslandi. Það er okkur mikils virði að stuðla að öryggi og vernd lofthelgi Íslands og NATO hér á landi. Það er líka liður í okkar vörnum að vera hér á Ísland og tryggja loftrými landsins,“ segir Kojo.