Körfubolti

Martin má ekki koma Kefla­vík til bjargar

Sindri Sverrisson skrifar
Remy Martin og Pétur Ingvarsson glaðbeittir eftir bikarmeistaratitilinn fyrir ári síðan. Pétur hætti sem þjálfari Keflavíkur fyrir rúmri viku og Martin er ekki að fara að spila fyrir Keflavík á þessari leiktíð.
Remy Martin og Pétur Ingvarsson glaðbeittir eftir bikarmeistaratitilinn fyrir ári síðan. Pétur hætti sem þjálfari Keflavíkur fyrir rúmri viku og Martin er ekki að fara að spila fyrir Keflavík á þessari leiktíð. Vísir/Hulda Margrét

Það verður ekkert af því að Remy Martin snúi aftur í lið Keflavíkur á þessari leiktíð, þó að hann hafi ekki verið skráður í annað félag síðan hann sleit hásin í úrslitakeppni Bónus-deildarinnar í körfubolta á síðasta ári.

Vangaveltur hafa verið um það hvort að Martin myndi mögulega mæta í lið Keflavíkur sem valdið hefur miklum vonbrigðum í vetur og situr aðeins í 10. sæti Bónus-deildarinnar. Þessi möguleiki var til að mynda nefndur í nýjasta þætti GAZins en með þeim fyrirvara að menn væru ekki vissir um hvort það væri leyfilegt.

Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, staðfesti við Vísi í dag að Remy gæti ekki spilað með Keflavík á þessari leiktíð. Til þess hefði þurft að skrá hann aftur í félagið áður en félagaskiptaglugginn lokaðist um síðustu mánaðamót.

Martin hefur ekki spilað síðan hann sleit hásin með því að renna til á auglýsingu á gólfinu í Smáranum í lok apríl á síðasta ári. Fram að því hafði hann farið á kostum með Keflavík og til að mynda átt ríkan þátt í því að liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn í tólf ár.

Umtalsverðar breytingar hafa orðið hjá Keflavík á síðustu dögum því Sigurður Ingimundarson er orðinn nýr þjálfari liðsins og þeir Jarell Reischel og Marek Dolezaj hafa verið kvaddir. 

Eftir standa þó sex erlendir atvinnumenn í liðinu og þar á meðal er Callum Lawson sem kom á lokadegi félagaskiptagluggans.

Keflavík hefur tapað fjórum leikjum í röð og þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Haukum á fimmtudagskvöld. Þegar fimm umferðir eru eftir eru Keflvíkingar með 14 stig í 10. sæti, þó aðeins tveimur stigum á eftir næstu fjórum liðum og fjórum stigum frá 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×