Skoðun

Smásálarleg hefni­girni kennaraforystunnar

Ólafur Hauksson skrifar

Kennarasambandið sýnir vægast sagt heift og hefnigirni í greinargerð sinni fyrir Félagsdómi, sem birt var í gær, 9. febrúar. Þar krefst Kennarasambandið þess að fyrstu verkföllin í fjórum leikskólunum haldi áfram, óháð því hvernig Félagsdómur úrskurði um önnur verkföll.

Leikskólarnir fjórir voru þeir einu sem völdust í fyrstu hrinu verkfallsins, en hún stóð í fimm vikur. Þegar verkföllin hófust aftur nú í byrjun febrúar bættist sjötta vikan við hjá börnunum í þessum leikskólum og sú sjöunda hefði verið að byrja ef Félagsdómur hefði fallist á þessa sérstöku kröfu Kennarasambandsins.

Kennarasambandið mátti vita að annað hvort yrðu öll verkföllin dæmd lögmæt eða ólögmæt. Þessi tilraun til að undanskilja verkföllin í leikskólunum fjórum er því ekkert annað en hefnaraðgerð gegn foreldrunum sem fóru í mál við Kennarasambandið og Félag leikskólakennara þar sem þau töldu verkföllin ólögleg. Héraðsdómur vísaði málinu frá og taldi að Félagsdómur ætti frekar að skera úr um lögmætið. Sem hann hefur nú gert, verkföllin eru ólögmæt. Foreldrarnir höfðu því rétt fyrir sér.

Forsvarsmenn kennara fóru í mikla fýlu út af þessari málssókn og átöldu foreldra fyrir að vera að skipta sér af kjarabaráttu þeirra. Með því að reyna að undanskilja leikskóla barna þessara foreldra í ákvörðun Félagsdóms afhjúpar kennaraforystan smásálarlegan hefndarhug sem henni er ekki sæmandi.

Ef Kennarasambandinu hefði orðið að ósk sinni um að halda áfram verkföllum í leikskólunum fjórum, þá væri staðan sú að þeir væru einir í verkföllum, ásamt leikskólanum í Snæfellsbæ. Þá væru 3% leikskólabarna að byrja sjöundu viku verkfalla í þeim tilgangi að knýja á um kjarabætur fyrir alla leikskólakennara, grunnskólakennara og framhaldsskólakennara landsins.

Hvernig getur forystufólk kennara horft í augun á foreldrum og viðsemjendum sínum og haldið því fram að eitthvað geti réttlætt þessa lítilmótlegu en þó misheppnuðu tilraun til að refsa foreldrunum fyrir að standa með börnum sínum?

Höfundur er afi leikskólabarns




Skoðun

Sjá meira


×