Handbolti

Segja Viktor læra af þeim besta hjá Barcelona og greina frá næsta fé­laga hans

Sindri Sverrisson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson virðist vera á leið til sjálfra Evrópumeistara Barcelona í sumar.
Viktor Gísli Hallgrímsson virðist vera á leið til sjálfra Evrópumeistara Barcelona í sumar. Vísir/Vilhelm

Það virðist eitt verst geymda leyndarmál handboltans að Viktor Gísli Hallgrímsson gangi í raðir sjálfra Evrópumeistara Barcelona í sumar, og nú er ljóst með hverjum hann mun deila markvarðarstöðunni hjá spænska stórveldinu.

Mögnuð frammistaða Viktors Gísla á nýafstöðnu HM er ekki það sem ræður því að íslenski landsliðsmarkvörðurinn skuli fara frá pólska félaginu Wisla Plock til Barcelona í sumar.

Spænska blaðið Mundo Deportivo greindi frá því fyrir mörgum mánuðum að Barcelona hefði tryggt sér Viktor Gísla og gert við hann samning sem gildi frá 2025 til 2027.

Blaðið hefur nú ítrekað þessa frétt og það að Viktor Gísli taki við af spænska landsliðsmarkverðinum Gonzalo Pérez de Vargas sem fer til Kiel í sumar.

Á næstu leiktíð verða Viktor Gísli og besti markvörður heims, hinn danski Emil Nielsen, því samherjar. Nielsen átti flestar markvörslur og varði hlutfallslega flest skot á HM og varð heimsmeistari en næstur á eftir honum varð einmitt Viktor Gísli.

Mundo Deportivo segir að Viktor Gísli, sem er 24 ára og því þremur árum yngri en Nielsen, fái eina leiktíð til þess að læra af Dananum en eftir hana fari Nielsen til Veszprém í Ungverjalandi.

Spænska blaðið greinir svo frá því að sumarið 2026 komi Sergey Hernández til Börsunga, í stað Nielsen, og deili markvarðarstöðunni með Viktori að minnsta kosti tímabilið 2026-27.

Hernández hefur leikið vel með Íslendingaliðinu Magdeburg í Þýskalandi og varði mark Spánar á HM í janúar ásamt De Vargas. Þeir vörðu nánast nákvæmlega jafnmörg skot á mótinu og þóttu standa sig ágætlega þó að spænska landsliðið ylli vonbrigðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×