Íslenski boltinn

Hrannar með þrennu gegn Þór

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hrannar Snær Magnússon mun þreyta frumraun sína í efstu deild í sumar.
Hrannar Snær Magnússon mun þreyta frumraun sína í efstu deild í sumar. vísir / pawel

Sex leikir fóru fram síðdegis í Lengjubikarskeppnum karla og kvenna.

FHL, sem mun spila í Bestu deild kvenna í fyrsta sinn á næsta tímabili, tók á móti Víkingi.

Víkingar fóru þar með 1-2 sigur þökk sé mörkum frá Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur og Ísfold Marý Sigtryggsdóttur. Björg Gunnlaugsdóttir minnkaði muninn fyrir FHL.

Karlamegin tók Fram á móti Völsungi og vann 3-1 sigur. Magnús Ingi Þórðarson skoraði opnunarmarkið á 13. mínútu, Alex Freyr Elísson skoraði svo þriðja markið á 60. mínútu rétt eftir að Elfar Árni Aðalsteinsson hafði óvart gert annað mark Fram með því að setja boltann í eigið net.

Hann bætti þó upp fyrir það með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu, skömmu eftir að Þorri Sveinn Þorbjörnsson, varnarmaður Fram, var rekinn af velli með rautt spjald.

Afturelding tók svo á móti Þór Akureyri og vann öruggan 4-0 sigur. Aron Jóhannsson skoraði eitt mark en Hrannar Snær Magnússon var með þrennu og tók leikboltann með sér heim. 

Enn fleiri mörk voru skoruð í leik Þróttar og Grindavíkur, en þar tókst Þrótti að skora sigurmark í seinni hálfleik og vinna 3-2.

Stjarnan vann svo 3-2 gegn ÍBV en ÍA og Vestri gerðu 2-2 jafntefli. Mörkin úr þeim leikjum má finna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×