Eigendur garðyrkjustöðvarinnar Friðheima eða þau Knútur Ármann og Helena Hermundardóttir tóku við rekstri garðyrkjustöðvarinnar Jarðarberjalands í Reykholti í Bláskógabyggð um áramótin af Hólmfríði Geirsdóttur og Steinari Jensen en stöðin er rétt hjá Friðheimum.
Jarðarber hafa alltaf verið vinsæl hjá landsmönnum enda fátt betra en að fá sér íslensk safarík og holl jarðarber enda segir Knútur að berin séu gott dæmi um hágæða vöru úr íslenskri ylrækt. Nýja stöðin hjá Friðheimum er mjög tæknivædd en gróðurhúsinu er skipt upp í 12 einingar þar sem uppskeran er mjög svipuð í hverri einingu allt árið. Jarðaberjaplönturnar koma sem mjög litlar plöntur inn í gróðurhúsið en það tekur þær svo um tvo mánuði að koma með jarðarber og svo er týnd af plöntunni í um tvo mánuði þannig að ferli hverrar plöntu er um fjórir mánuðir en þá er plöntunni skipt út fyrir nýja jarðaberjaplöntu. Svona gengur þetta koll af kolli. Knútur segir að íslensk jarðarber séu alltaf að verða vinsælli og vinsælli enda stoppi þau stutt út í búðum, þau seljist meira og minna öll.

Nú ertu líka að rækta tómata í Friðheimum, hvort er nú betra tómatar eða jarðarber?
„Það er bara gaman að koma að þessu líka. Við erum náttúrulega búin að vera í því að rækta tómata í 30 ár þannig að við kunnum það bara nokkuð vel og því var mjög gaman að útvíkka bæði sjálfan sig og sjóndeildarhringinn og taka við þessum rekstri en hvoru tveggja bæði gott,” segir Knútur.
Þannig að þú ert bara bjartsýnn með þetta?
„Mjög bjartsýnn og það sem er gaman við jarðarberin er að við getum fléttað því svolítið inn í ferðaþjónustu hlutann á okkar starfsemi líka því við opnuðum vínstofu og bistro bar fyrir einu og hálfu ári síðan þannig að nú er hægt að koma þar og fá ferska jarðaberjakokteila og drykki úr okkar heimaræktuðu jarðarberjum,” segir Knútur Ármann.