Á Friðheimum í Reykholti í Bláskógabyggð eru þau Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn með myndarlega ylræktarstöð þar sem þau rækta tómata, gúrkur og fleira íslenskt grænmeti, auk þess að taka á móti ferðamönnum í gróðurhúsinu. Rafmagnsreikningurinn hjá garðyrkjubændum, sem stunda ylrækt hækkað um 25% um síðustu áramót.
„Rafmagnsmálin eru náttúrulega í grafalvarlegir stöðu og við erum einhvern vegin komin með ótrúlegan veruleika á Íslandi þar sem að orkan, rafmagnið, sem við héldum og höfum alltaf reiknað með að yrði á sanngjörnu verði. Rafmagnsverð á Íslandi er bara að nálgast það verð, sem er í Evrópu því það hafa orðið svo miklar hækkanir á okkur núna síðustu árin og sérstaklega núna um áramótin þegar rafmagnsreikningurinn hjá okkur hækkað um 25 prósent,” segir Knútur.
Það þýðir að nú þurfa eigendur Friðheima að borga rúmlega 10 milljónir króna í rafmagnsreikning um hver mánaðarmót.

En heldur Knútur að einhverjir muni hætta eða gefast upp?
„Ef að ekki verður breyting þarna og lagfæring þá mun það gerast, það er alveg ljóst,” segir Knútur og bætir við.

„Íslensk garðyrkja er náttúrulega atvinnugrein, sem við eigum að vera stolt af og við erum að nýta okkar grænu orku og við erum að nýta okkar náttúruauðlindar til þess að búa til hollan og góðan mat fyrir okkur sjálf og það er ótrúlegt ef svona pólitískt umhverfi í kringum rafmagnsmálin á Íslandi ætli að fara að ýta þessari atvinnugrein út af markaði.”
En á Knútur einhver skilaboð til nýrrar ríkisstjórnar?
„Já, koma bara strax til verka því það skiptir gríðarlega miklu máli að bregðast hratt við því að þetta er allt að gerast núna. Við fengum á okkur risa hækkun núna 1. janúar, þannig að þarf að bregðast hratt við.”
