Fótbolti

Félix tókst að færa sig frá Lundúnum til Mílanó

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Félix við undirskriftina.
Félix við undirskriftina. AC Milan

Vistaskipti João Félix voru ein af þeim síðustu til að vera staðfest þegar félagaskiptagluggi stærstu knattspyrnudeilda Evrópu lokaðist á miðnætti. Portúgalinn Félix hefur ekki verið í myndinni hjá Chelsea og er nú kominn til AC Milan.

Félix hefur verið á flakki undanfarin tímabil en eftir frábæra byrjun á ferli sínum hjá Benfica í heimalandinu keypti Atlético Madríd hann dýrum dómum árið 2019. Þrátt fyrir fínar rispur fann Félix í raun aldrei fjöl sína í Madríd og var lánaður til Chelsea árið 2023 og svo í kjölfarið til Barcelona.

Félix spilaði vel í Katalóníu en Barcelona var ekki tilbúið að standa í frekari fjárhagsfimleikum til að fá hann í sínar raðir. Þá kom Chelsea aftur til sögunnar og keypti framherjann á 52 milljónir evra. 

Eftir að hafa lítið sem ekkert komið við sögu það sem af er ef leiktíð vildi leikmaðurinn og Chelsea færa hann í félagaskiptaglugganum. Það tókst á endanum og er hinn 25 ára gamli Félix nú kominn til Mílanó þar sem hann mun spila fyrir AC Milan það sem eftir lifir leiktíðar.

Ekki kemur fram hversu mikið AC Milan borgar fyrir að fá Félix eða hvort liðið hafi forkaupsrétt á leikmanninum næsta sumar.

AC Milan er í 8. sæti Serie A, efstu deildar Ítalíu, með 35 stig að loknum 22 leikjum. Lazio er í 4. sæti með 42 stig eftir að hafa leikið einum leik meira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×