Erlent

Einn látinn eftir sprengju­til­ræði í lúxu­sblokk í Moskvu

Kjartan Kjartansson skrifar
Öryggissveitarmaður að störfum í Moskvu eftir að herforingi var ráðinn af dögum þar í desember. Önnur sprenging varð manni að bana í borginni í morgun.
Öryggissveitarmaður að störfum í Moskvu eftir að herforingi var ráðinn af dögum þar í desember. Önnur sprenging varð manni að bana í borginni í morgun. Vísir/EPA

Að minnsta kosti einn er látinn og fjórir eru alvarlega særðir eftir að sprengja sprakk í anddyri lúxusblokkar í Moskvu í morgun. Lögregla telur að um morð hafi verið að ræða en ekki liggur fyrir hver skotmarkið var.

Sprengjan sprakk rétt í þann mund sem karlmaður í fylgd lífvarða sinna gekk inn í anddyri Scarlet Sails-íbúðablokkarinnar við bakka árinnar Moskvu, að sögn Reuters-fréttastofunnar sem vísar í rússneska fjölmiðla.

Rússneska ríkisfréttaveitan RIA Novosti segir að þeir særðu liggi þungt haldnir á sjúkrahúsi. Sakamálarannsókn er sögð hafin á sprengingunni mannskæðu.

Rússneskur herforingi var ráðinn af dögum í sprengingu fyrir utan íbúðablokk í Moskvu í desember. Úkraínumenn lýstu yfir ábyrgð á launmorðinu. Þeir hafa ekkert sagt um tilræðið í rússnesku höfuðborginni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×